145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil halda því til haga að ég er ekki endilega sannfærður um að borgaralaun séu raunhæf, en þau yrðu það kannski í þeim kringumstæðum að við værum að horfa fram á 30–50% atvinnuleysi. Það breytir öllu. Við búum við mjög lágt atvinnuleysi, þannig að eins og er tel ég ekki vera forsendur fyrir borgaralaunum. Mér þykir þó mikilvægt, sérstaklega með hliðsjón af tækniframþróun sem mun halda áfram að aukast og verða hraðari, að við séum reiðubúin fyrir þær spurningar þegar þær loksins vakna í umhverfi þar sem það er ekki bara raunhæft heldur mögulega nauðsynlegt.

Hvað sem því líður er ég sammála hv. þingmanni um að virkniúrræði þurfi að vera til staðar og ég hef ekki tekið eftir neinum ágreiningi um það. Menn eru kannski meira að rökræða það hvernig þeir vilja nálgast það, hvort þeir vilji gera það með því að skilyrða fjárhagsaðstoð og hafa virkniúrræði eða eingöngu hafa virkniúrræði eða hvað eina. Ég átta mig nákvæmlega ekki á því hvar ágreiningurinn liggur í kringum virkniúrræði. Það virðast allir vera sammála um að þau eigi að vera til staðar. Vissulega hljóta þau að kosta peninga, en það eru peningar sem væntanlega eru einhvers konar fjárfesting.

Þess heldur spyr ég mig hvort þetta mál sé í raun og veru grundvöllurinn fyrir þeirri umræðu vegna þess að hér er lagt upp með eitthvað sem gefna forsendu, sem virðist líka vera gefin forsenda í gildandi lögum, alla vega að mati sveitarfélaganna og þeirra sem beita skilyrðingum fjárhagsaðstoðar. Nú er það kannski fáfræði hjá mér en ég veit ekki til þess að niðurstaða hafi fallið í þessum málaflokki á þann veg að skilyrðing á fjárhagsaðstoð sé ólögleg samkvæmt gildandi lögum. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort við ættum kannski ekki að nálgast málið meira út frá heildstæðri sýn til lengri tíma, burtséð frá þessu tiltekna atriði í málaflokknum.