145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í öðru andsvari virðast allir sammála um þessi virkniúrræði. Ég er viss um það að allir hér, með eða á móti frumvarpinu, væru mjög áhugasamir um það framtak sem hv. þingmaður nefndi frá Akranesi. Ég er mjög áhugasamur um það.

Það sem vekur líka athygli mína eru umsagnir um málið þegar það var lagt fram í vor. Þá tók ég eftir því að það voru fyrst og fremst félagsráðgjafar sem settu sig upp á móti þessu, aðallega að því er virðist vegna þess að þeir töldu þá tegund af hvatningu að taka burt fjárhagsaðstoðina geta verið neikvæða, geta verið til þess að auka vandamál eins og kvíða eða eitthvað því um líkt.

Það er þess vegna sem ég velti fyrir mér hvort virkniúrræðin, þ.e. einhvers konar inngrip þar sem reynt er að aðstoða fólk inn á réttu brautina í lífinu — sem er að gera hluti því að það er miklu skemmtilegra að gera eitthvað en að gera ekkert, ég lít á það sem svo augljósa staðreynd að ég hreinlega trúi því ekki að neinn langi innst inni að gera ekki neitt, ég kaupi það ekki alveg, ég veit að margir eru ósammála mér um það og það eru kannski heimspekileg viðhorf þar að baki frekar en rannsóknir — eða hugmyndir á borð við þær sem hv. þingmaður nefndi frá Akranesi dugi ekki hreinlega, hvort það sé ekki í raun og veru nóg, þ.e. ef þær ganga nógu langt og markmiðið er að láta þær virka þannig að þær auki virkni fólks. Væri það ekki í raun langbesta leiðin? Þá velti ég líka fyrir mér skerðingarleiðinni, sem ég ber virðingu fyrir að fólk aðhyllist, ég tel það ekki vera mannvonsku þótt ég sé ósammála henni en ég óttast að skerðingarnar komi í staðinn fyrir svona úrræði þannig að þegar sveitarfélög og ríkið reyna að búa til virkniúrræði sé minni þrýstingur á því að láta þau virka eftir fremsta megni vegna þess að það er þetta skerðingarúrræði til staðar.