145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það liggi alveg fyrir að við hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir séum alveg sammála um að það eigi að hvetja fólk til virkni og það sé mikilvægt einstaklingnum og samfélaginu að fólk sé virkt. En okkur greinir augljóslega á um það hvað við teljum vera líklegt til þess að stuðla að virkni fólks eða hvað séu hreinlega ásættanlegar aðferðir til þess. Það er sá ágreiningur sem mig langar að reyna að nálgast í andsvari mínu við hv. þingmann.

Mér fannst það mjög áhugavert sem hv. þingmaður talaði um, þ.e. hvernig unnið er á Akranesi með einstaklingsmiðaðar nálganir þar sem einstaklingum sem ekki hafa treyst sér til að stíga skrefin út á vinnumarkaðinn einir og óstuddir er hjálpað, til að mynda fólki með félagskvíða. Hv. þingmaður sagði að þessir einstaklingar hefðu talað um að þeir hefðu fundið mikla aðstoð í þessu úrræði.

Ég velti fyrir mér: Veit hv. þingmaður hvort þessir einstaklingar hafa orðið fyrir einhverjum skerðingum? Hefur það einhvern tímann komið fram í umræðunni hvort þessir einstaklingar telji hótunina um skerðingu hjálpa á einhvern hátt? Ég sé hreinlega ekki hvernig svona virkniskerðing (Forseti hringir.) á að hjálpa fólki sem þjáist til að mynda af félagskvíða til að verða virkir samfélagsþegnar.