145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:42]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við erum sammála um að það sé gott að fólk sé virkt. Hún spyr hvað sé líklegt til að stuðla að virkni fólks og segir að okkur greini á um hvaða aðferðum við eigum að beita til þess að stuðla að þeirri virkni. Hún spyr út í þá einstaklinga sem ég vitnaði til og hef átt samtal við vegna þessara mála. Ég veit að minnsta kosti að unnið hefur verið samkvæmt þessum skilyrðingum hjá Akraneskaupstað til einhvers tíma. Ég tel að þessir einstaklingar hafi tekið þátt í því þar sem þeir fóru í gegnum virkniúrræði á vegum Skagastaða og Vinnumálastofnunar. Ég get ekki svarað því hvort þeir hafi orðið fyrir skerðingu eða ekki, en alla vega voru þeir í vinnumarkaðsúrræðum þannig að ég tel að þeir hafi fallið undir það sem lögin kveða á um, þ.e. að vera í úrræðunum og eiga þar af leiðandi rétt á öllum þeim stuðningi sem félagsþjónustan gerir ráð fyrir. Þeir hafa að minnsta kosti þakkað því þessum úrræðum að þeir eru þar sem þeir eru núna, á vinnustað meðal fólks og hafa átt í félagslegum samskiptum. Það eitt og sér er afar jákvætt.