145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil leggja orð í belg í þessa ágætu og málefnalegu umræðu. Ég var ekki í velferðarnefnd á síðasta vetri og var þar af leiðandi ekki þátttakandi í vinnunni við frumvarpið, en það hefur verið umdeilt og býsna sterkar skoðanir á því í ýmsar áttir. Ég mun eiga þess kost að fylgja því eftir í nefnd að þessu sinni. Ég kannast við málið og hef fylgst með framgangi þess og þekki það frá samskiptum við sveitarfélögin; það var í höndum fyrri félagsmálaráðherra, þannig að sú sem nú er í því embætti er ekki sú fyrsta sem glímir við óskir sem hafa komið frá ýmsum sveitarfélögum í þessum efnum um að staðan verði að einhverju leyti skýrð hvað varðar þennan grundvöll fjárhagsaðstoðarinnar. Það má vissulega hafa skilning á ýmsum sjónarmiðum í þessu máli.

Það er þó rétt, held ég, að ganga ekki of langt í jákvæðum túlkunum eins og mér finnst aðeins bera á í umræðunum hér, að hægt sé að snúa þessu við með jákvæðri túlkun, jákvæðri nálgun, og segja að í staðinn fyrir að þetta sé skilyrðing og heimild til að skerða fjárhagsaðstoð þá sé þetta sérstaklega hugsað til að aðstoða hópinn sem þar er. Við getum auðvitað sagt að að hluta til geti það verið svo, að sjálfsögðu, en þetta er í grunninn heimild til að skerða fjárhagsaðstoð, því verður ekki á móti mælt, þó að hugsanlega megi vinna með það mál þannig að það nái fram jákvæðum tilgangi ef það er gert á uppbyggilegan hátt.

Í mínum huga snýst þetta um þessar tvær algerlega óskyldu hliðar á efni frumvarpsins sjálfs, þ.e. að það er í grunninn heimild sveitarfélaga til að skilyrða fjárhagsaðstoð og að taka hana af fólki við vissar aðstæður. Það tengist líka uppruna málsins. Nú geri ég ekkert lítið úr því að sveitarfélög vilji hafa skýrar reglur í þessum efnum og að mörg þeirra sjái í þessu tækifæri til að vinna virkt með þeim hópi sem í hlut á, en eigum við nokkuð að vera að gleyma því, bara til þess að vera voðalega jákvæð, að á bak við liggja að sjálfsögðu líka hjá sveitarfélögunum, mörgum hverjum, hugmyndir um að það geti dregið úr útgjöldum. Við þekkjum vel hvenær þrýstingur kom á þetta mál aftur. Það var þegar aðstæður voru vissulega miklum mun erfiðari en þær eru í dag, atvinnuleysi umtalsvert og ég tala nú ekki um þegar núverandi ríkisstjórn fór í það að stytta enn frekar tímabilið sem atvinnuleitendur njóta réttar til atvinnuleysisbóta; meðan atvinnuleysi var umtalsvert og það var það mikið langtímaatvinnuleysi að sveitarfélögin gerðu jafnvel ráð fyrir því að ekki bara hundruð heldur jafnvel þúsund eða á milli eitt og tvö þúsund manns gætu á tilteknum tíma misst rétt sinn til atvinnuleysisbóta án þess að vera tryggir um að hafa atvinnu og þá byði þeirra ekkert annað en framfærsla á vegum sveitarfélaganna. Þá skapaðist þrýstingur á það að innleiða mætti í þetta svipað fyrirkomulag og er virkt í atvinnuleysisbótakerfinu, þ.e. vinnumarkaðsaðgerðir þar sem reynt er að tryggja að fólk sem er án atvinnu tímabundið og er í atvinnuleit haldist virkt, noti tímann eftir atvikum til að endurhæfa sig, mennta, en sé líka virkt í atvinnuleitinni.

Það element er líka áfram þarna. Jafnvel þó að við gleðjumst öll yfir því að atvinnuleysið hafi minnkað, og vandamálið ætti þar af leiðandi ekki að vera eins alvarlegt eða sveitarfélögunum eins mikið áhyggjuefni og þau kannski töldu fyrir einu eða tveimur árum, þá geta þær aðstæður og þeir hlutir komið upp aftur. Á móti hinu, sem ekki verður fram hjá horft, að hér er um neðsta öryggisnetið í samfélaginu, velferðarsamfélaginu, að ræða. Þetta er neðsta netið sem á að grípa menn þegar önnur úrræði eru ekki til staðar, þegar menn hafa misst rétt sinn til framfærslu úr atvinnuleysisbótakerfinu, eiga engan veikindarétt eða hafa greiðslur úr annarri átt og hefur ekki tekist að tryggja sér tekjur með atvinnu eða öðrum hætti.

Þá er komið að því sem ég á erfiðast með í þessu máli þó að maður reyni að hafa skilning á öllum þessum sjónarmiðum. Ég verð einfaldlega að segja að ég á afar erfitt með að sætta mig almennilega við að velferðarkerfið og réttindi fólks í því hér á landi sé þá orðið þannig að í raun og veru sé ekkert endanlegt net undir mönnum sem tryggi að þeir hafi þó alltaf einhverja lágmarksframfærslu. Því hvað segir það okkur að einstaklingur sem hefur orðið að reiða sig á þennan afar takmarkaða stuðning, sem er nú ekki rausnarlegur, sé sviptur honum þó að það sé ekki nema í tvo mánuði? Hvað á þá að taka við? Á hann að lifa á helmingnum? Er það réttlætanlegt? Geta verið nógu gildar ástæður til þess að gera það? Við vitum stöðunnar vegna að það er ekkert annað sem kemur í staðinn. Það er ekki þannig. Hann er á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu, nýtur þar félagslegrar framfærslu vegna þess að hann á hvergi annars staðar neinn rétt og hefur engar aðrar tekjur. Það er bara þannig. Þetta er ávísun um að setja fólk út a.m.k. að hálfu leyti og ætla því að lifa á loftinu á meðan. Jú, jú, menn geta sagt að viðkomandi geti að einhverju leyti sjálfum sér um kennt. Menn geta sagt að þetta eigi bara að hjálpa honum, en ég á óskaplega erfitt með það eitt að þessi möguleiki sé til staðar, ég verð að segja það alveg eins og er.

Þá kem ég að öðru sem mér finnst fara svolítið fram hjá mönnum, í ákafa til að finna á þessu jákvæðar hliðar, það er að í reynd muni þetta hjálpa fjölda fólks til að komast í gang og fara í virka vinnuleit eða leita úrræða til að komast út úr þeirri bágu stöðu að vera háð fjárhagsaðstoð sveitarfélags. En þarf að nota þessi tæki til þess? Við skulum ekki ræða þetta eins og ekki sé hægt að hugsa sér að það gerist á annan hátt en þennan, að vera bundinn neikvæðri skilyrðingu um að yfir þér vofi missir bóta, þessarar litlu framfærslu, ef þú ekki gerir þetta. Það er að sjálfsögðu hægt að hugsa sér, og þannig ætti það að vera, að sveitarfélögin væru að vinna mjög virkt með þessum hópi algerlega án þess að þurfa að hafa svona vopn á lofti. Það er gert sums staðar annars staðar einfaldlega með jákvæðum og uppbyggilegum hvötum. Mér finnst þetta svolítið snúast um það. Í þessu tilviki sérstaklega, þegar ekkert annað bíður manna, þá held ég að menn eigi að líta á það sem síðasta þrautaúrræði, ef þeir yfir höfuð telja það réttlætanlegt og ganga upp, að skilyrða fjárhagsaðstoð sveitarfélags.

Hvernig gætu jákvæðir hvatar í þessum efnum litið út? Jú, þeir geta að sjálfsögðu litið mjög hliðstætt út og virkar vinnumarkaðsaðgerðir gera, að með kerfisbundnum hætti væri unnið með þessum hópi, hann fengi persónulegan stuðning, hann fengi heimsóknir, hans mál væri skoðað, honum byðist stuðningur, honum byðist aðstoð, honum byðist stuðningur við að greiða námsgjöld eða efniskostnað ef hann vildi nýta sér eitthvað slíkt og jafnvel stuðningur beinlínis við að fara í tilraunastörf úti á vinnumarkaði, láta frekar félagslegar greiðslur fylgja mönnum í einhver störf sem sveitarfélög, eftir atvikum í samstarfi við atvinnulífið, reyndu að tryggja að væru alltaf í boði fyrir þá sem væru á annað borð metnir með einhverja starfsgetu, væru að minnsta kosti að einhverju verulegu leyti vinnufærir.

Þetta er nú ekki nýtt undir sólinni satt best að segja. Ég þekki dæmi þess að verkalýðsfélög, sem sáu um útgreiðslu atvinnuleysisbóta á sínu svæði, þar sem var kannski samt sem áður, og þrátt fyrir ágætt atvinnuástand, rúllandi einhver listi með nokkrum tugum eða nokkrum hundruðum atvinnuleitenda, höfðu það þannig að kerfisbundið var farið yfir þann lista og haft samband við alla sem voru búnir að vera á þeim lista lengur en kannski þrjá mánuði og farið í vinnu með þeim við að reyna að leita sér að atvinnu. Þó að þeir ættu fullan rétt til atvinnuleysisbóta vofði ekki yfir þeim nein svipting þeirra réttinda, einfaldlega vegna þess að verkalýðsfélagið vildi vinna með þessu fólki og vildi aðstoða það við að komast aftur út á vinnumarkaðinn þó að það ætti þess vegna heilsársrétt til atvinnuleysisbóta eftir. Oft náðist prýðilegur árangur í þessum efnum, tókst kannski að stytta þennan lista, fækka á honum um næstum helming á ákveðnu svæði þar sem ég þekki mjög vel til og fylgdist með svona vinnu sem var mjög jákvæð og uppbyggileg.

Ég sé ekki annað en að sveitarfélögin gætu haft alls kyns úrræði og ríkið gæti þess vegna verið þeim innan handar í þeim efnum að vinna með fólk sem er í þessari stöðu. Og það þarf að sjálfsögðu að gera, því að það er ekki tilvera sem við viljum sjá neina festast varanlega og til langframa í, enda er þá eitthvað mikið að, að vera árum saman háða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga um afkomu sína, enda sé ástandið í landinu sæmilegt og viðkomandi metinn vinnufær að einhverju leyti.

Oft er það nú þannig að það tekur sinn tíma að vinna úr svona málum og stundum þarf ákveðinn tíma til að átta sig á því hvaða stefnu mál viðkomandi einstaklings eru að taka. Er hann kannski á leið út af vinnumarkaðnum og inn á varanlega örorku? Er hann í einhverju millibilsástandi og aðstæður mjög mismunandi og breytilegar eins og við þekkjum?

Mér finnst þar af leiðandi undarlegt — í ljósi þess að ástandið hefur batnað til mikilla muna og haldið áfram að gera það samfellt bara í ein fimm, sex ár á Íslandi, alla vega fimm frá árinu 2011 að telja — að þá skulum við enn vera að vandræðast með þetta í höndunum. Ég gæti alveg sætt mig við að í gangi væri vönduð lögfræðileg skoðun á því nákvæmlega hver réttarstaðan ætti að vera í þessum efnum þannig að ekki léki vafi á því hvað væri heimilt og hvað ekki og hvað menn vildu gera og hvað ekki. Það er líka hægt að nálgast þetta einfaldlega út frá grundvallarviðhorfum eða prinsippum í sambandi við kerfin og svara þessari spurningu fyrst af öllu: Ætlum við yfir höfuð að hafa velferðarkerfið þannig að það sé ekkert síðasta öryggisnet sem grípi menn alltaf, að það sé alltaf tryggt að menn hafi lágmarksmöguleika á að framfleyta sér í samfélaginu og sú aðstoð verði aldrei frá þeim tekin, þeim verði aldrei vísað út úr því kerfi, það verði aldrei klippt göt á neðsta öryggisnetið í samfélaginu að þessu leyti?

Mér finnst þetta næstum sambærilegt við, ef það er gert, að sætta sig við að einhverjir eigi hvergi höfði sínu að halla, að menn hafi bara heimild til að víkja til hliðar þeirri skyldu velferðarsamfélagsins að sjá um að menn eigi sér einhvers staðar athvarf, þak yfir höfuðið af einhverju tagi, ef ekki íbúðarhúsnæði sem þeir sjálfir hafa ráð á þá sé reynt að sjá fyrir því að þeir geti þá að minnsta kosti átt athvarf á heimilum eða á einhverjum öðrum stöðum. Ég held að fáir mundu taka undir það. Við ætlum ekki að fara að lenda hér í amerísku ástandi beinlínis með heimilislaust fólk á götunni. En þetta er eiginlega næsti bær við það ef við ætlum að sætta okkur við að þau tilvik geti orðið uppi að eitthvað af fólki, sem hefur orðið að reiða sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, verði að komast af mánuðum saman, kannski nokkur skipti í senn, á hálfri þeirri framfærslu sem er nú að flestra dómi varla hægt að segja að sé forsvaranleg, svo lág er hún, ef menn hafa að engu öðru að hverfa. Ég tek það fram að hér er dálítið öðru til að dreifa en því þegar tímabundið þarf að hlaupa undir bagga með þeim sem ná ekki endum saman, vegna lágra tekna eða slíkra aðstæðna, svo að þeir fái einhvern viðbótarstuðning í gegnum sitt sveitarfélag. En þegar við erum að tala um fólk sem hefur að engu öðru að hverfa, og að þetta sé beinlínis þannig að sjálfar (Forseti hringir.) grunnfjárhæðirnar megi skerða, þá finnst mér við komin út á ansi hæpna braut, verð ég að segja, frú forseti.