145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[19:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af tveimur leiðum aðhyllist ég tvímælalaust þá jákvæðu frekar en þá neikvæðu enda benda félagsráðgjafar á, eins og fram kom í umsögnum um málið í vor, að neikvæða aðferðin getur verið skaðleg, í það minnsta ekki heillavænleg, ekki heillavænlegri en hitt sem eru jákvæðu aðferðirnar.

Annað vefst svolítið fyrir mér í þessari umræðu og sérstaklega í svörum hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur áðan í samtali okkar, það er hlutverk ríkisins og hlutverk sveitarfélaga í málum sem þessum. Við erum með almannatryggingakerfi sem við ræðum oft á Alþingi og ekki nóg, það er stórkostlega flókið, ekki einfaldar það nú málið að hafa sveitarfélögin með þessa fjárhagsaðstoð sem spilar vænti ég mjög misjafnlega inn í almannatryggingakerfið.

Ég velti fyrir mér, ef við ætlum að hafa síðasta netið skulum við kalla það, eitthvað sem ég aðhyllist algjörlega, er það þá ekki eitthvað sem ætti í raun og veru heima hjá ríkinu? Það liggur fyrir að sveitarfélögin vilja fá þetta samkvæmt umsögnum í vor, mig minnir öll, kannski bregst mér minni, það var kannski eitt sem var á móti þessu en það getur verið rangt hjá mér. En ef við erum að tala um eitthvað svona lokað öryggisnet eins og við erum að tala um, ef það er grundvallarprinsippið á bak við hugmyndafræðina þá finnst mér í fljótu bragði að slíkt ætti heima hjá ríkinu, annaðhvort í almannatryggingakerfinu eða einhverju öðru kerfi sem væri þá á einhvern hátt skylt því eða tengt.

Þetta vefst svolítið fyrir mér vegna þess að þegar ég var í samræðum áðan við fyrrnefndan hv. þingmann svaraði hún því oft að þarna væri um samræmingu milli sveitarfélaga að ræða líka, sem er sjálfsagt rétt og gott að mínu mati í sjálfu sér, sem sjálfstætt markmið, en mér þætti vænt um að heyra frá hv. þingmanni hvort hann sér þetta sama.