145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[19:24]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Af því að þingmaðurinn minntist á samræmi og samræmingu á kerfinu þá rak ég einmitt augun í það í umsögn Öryrkjabandalags Íslands, sem kemur einmitt inn á þetta samræmi. Í umsögn Öryrkjabandalagsins kemur fram um ákvæði frumvarpsins, þ.e. um að samræmi sé á milli fjárhæðar fjárhagsaðstoðar milli sveitarfélaga eins og það er lagt upp, með leyfi forseta:

„Ekki er ljóst hvernig ákvæði frumvarpsins eigi að stuðla að meira samræmi, þegar það byggir áfram á leiðbeinandi reglum og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga. Ekki verði séð að þetta vandkvæði verði leyst nema lögfest verði lágmarksupphæð fjárhagsaðstoðar um land allt til að tryggja samræmi og jöfnuð eftir búsetu.“

Það er þá ekki ljóst samkvæmt frumvarpinu, eins og hv. þingmaður kom inn á, hvers konar samræmdum reglum er verið að ýja að í raun og veru og hvaða framtíðartónlist er verið að fara að spila í þessum málaflokki. Eingöngu það að ráðherra muni setja þessa viðmiðunarfjárhæð í samræmi og samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og hún sé einhvers konar — það er ákveðið bara þeirra í millum. Enginn annar aðili kemur inn sem umsagnaraðili í þá vinnu eins og ég skil það. Ég tek því svolítið undir með hv. þingmanni að hér skortir samræmi og samráð eins og kannski hefur verið lagt upp með í frumvarpinu.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverjar hugmyndir þar að lútandi.