145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[19:28]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að veita okkur innsýn í vangaveltur hans um samræmingu á þessu kerfi, sem ég veit ekki hvort geti þá orðið ein flöt upphæð eða hvað svo sem þingmaðurinn er að ýja að eða velta fyrir sér og er honum ofarlega í huga.

En dæmi um þetta ósamræmi sem hv. þingmaður er kannski að ýja að og koma inn á er að hér er verið að setja sömu kröfur um atvinnuleit og virka atvinnuleit varðandi fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna og atvinnuleysisbætur. Hér er í raun og veru verið að samræma ákveðnar kröfur og skyldur á þá sem þiggja aðstoðina og þá sem eru atvinnulausir og eru í virkri atvinnuleit nú þegar en eru ekki sami hópurinn. Við hv. þingmaður getum, held ég, verið sammála um það.

En meginstefið sem ég held að ég geti tjáð mig um og sagt hér og nú er að við hv. þingmaður hljótum að deila þeirri sýn að vilja sjá einhvers konar öflugri, meira styrkjandi virkniaðferðir en þær sem finna má í frumvarpinu sem við ræðum, sem er alltaf svona þessi hótunarandi að afnema peninga af fólki um leið og það eigi að vera leiðin til þess að virkja fólk og það gerist virkari þegnar í samfélaginu. Það hugnast mér ekki.