145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

ný innflytjendalöggjöf í Danmörku.

[10:35]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá þessa fyrirspurn. Það er rétt sem þingmaðurinn segir. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég fæ fyrirspurn sem samstarfsráðherra Norðurlandanna.

Staðan eins og hún hefur verið á undanförnum mánuðum í flóttamannamálum í Evrópu er eitthvað sem við höfum verulegar áhyggjur af. Þær fréttir sem hafa borist núna frá Danmörku eru eitthvað sem er svo sannarlega ástæða til þess að ræða hér og hvernig menn hafa verið að bregðast við þessu verkefni.

Það sem við höfum heyrt mest í umfjöllun fjölmiðla hér snýr einmitt að því að taka fjármuni af hælisleitendum. En það er annað mál sem ég vil líka fá að nefna sem ég hef verulegar áhyggjur af en það eru takmarkanir á fjölskyldusameiningu og áhrifin sem það getur haft á hælisleitendur sem fá stöðu flóttamanna og möguleika þeirra á að aðlagast í Danmörku eða í öðru landi sem þeir fá hæli í. Við höfum séð að það er erfitt fyrir einstakling að byrja að byggja upp nýtt líf ef hann hefur verulegar áhyggjur af afdrifum fjölskyldu sinnar. Við höfum þannig verið að huga að því hér hvað við getum gert til þess að auðvelda fjölskyldusameiningar á Íslandi.

Það er fundur í næstu viku í Finnlandi þar sem m.a. er á dagskrá hvernig við getum útvíkkað og bætt samstarf Norðurlandanna sem snýr að því að hjálpa flóttamönnum og innflytjendum almennt að komast inn í norrænt samfélag. Ég (Forseti hringir.) get ekki betur séð en að sú tillaga byggist nákvæmlega á þeim norrænu gildum sem þingmaðurinn nefnir, en ég tel svo sannarlega að þetta mál verði rætt á þeim fundi líka.