145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

ný innflytjendalöggjöf í Danmörku.

[10:38]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum enn á ný fyrir hvatninguna. Þetta er eins og ég hef sagt gífurlega vandasamt verkefni eins og kemur fram í tillögunni sem liggur fyrir núna í Norrænu ráðherranefndinni. Þar kemur fram að þetta er ekki eitthvað sem við eigum að gera ráð fyrir að sé bara að gerast akkúrat núna heldur, eins og ég hef sagt margítrekað, erum við að horfa á breytta heimsmynd, breyttan veruleika.

Það er verið að ræða þetta á evrópskum vettvangi. Það er verið að ræða þetta innan Norrænu ráðherranefndarinnar og ég geri fastlega ráð fyrir því að þingmenn muni að sjálfsögðu líka ræða þetta, ekki bara þau viðbrögð sem við sjáum núna í Danmörku heldur líka í öðrum löndum og hvernig sé best að vinna úr þessu. Það verði gert á grundvelli þeirra áherslna sem þingmaðurinn nefnir hér, á grundvelli þess sem hefur einkennt norræn samfélög, okkar norrænu gildi, á grundvelli virðingar fyrir mannréttindum og að við hugum að því hvernig við getum (Forseti hringir.) stutt hvern og einn einstakling sem kemur til okkar og þá sem búa í samfélagi okkar með sem bestum hætti.