145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

viðbrögð við skýrslu um fátækt barna.

[10:47]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa lýst yfir andúð sinni á nýlegri löggjöf á danska þinginu sem er vægast sagt hörmuleg niðurstaða.

En mig langar til að beina spurningu til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra vegna skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem birt var í síðustu viku og leiddi í ljós sláandi niðurstöður. 6.100 börn á aldrinum eins árs til 15 ára líða efnislegan skort hér á landi, þar af líða tæplega 1.600 börn verulegan skort. Breyturnar sem skipta þar mestu eru menntun foreldra, atvinnuþátttaka foreldra og staða á húsnæðismarkaði. Ég óska eftir því við hæstv. ráðherra, sem hefur nú þegar brugðist við niðurstöðum skýrslunnar með því að segja að þær styrki hana sjálfa í sinni vissu um sín frumvörp í húsnæðismálum og sínar aðgerðir þar, sem ekki er ljóst hvort samþykkt verða óbreytt miðað við þær umsagnir sem borist hafa um þau frumvörp, að hún útskýri nánar aðgerðir sínar og viðbrögð varðandi niðurstöður UNICEF-skýrslunnar og hverjar nákvæmlega aðgerðir hennar verða í þágu barna sem líða efnislegan skort á Íslandi.