145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

viðbrögð við skýrslu um fátækt barna.

[10:49]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að ef hv. þingmaður hefði áhuga á væri alveg ástæða til að við ræddum þetta ítarlegar en við getum gert í þessum stutta og óundirbúna fyrirspurnatíma.

Ég vil nota tækifærið til að þakka Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sérstaklega fyrir þetta frumkvæði en í fyrsta lagi vil ég benda á að það sem kemur fram í þeirri greiningu sem Barnahjálpin birti þarna er farið í gögn sem lágu hjá Hagstofunni sem hafa meðal annars verið unnin í samstarfi við ráðuneytið og hafa birst með einum eða öðrum hætti í hinum svokölluðu félagsvísum sem var komið á í tíð og að frumkvæði fyrrverandi þingmanns og ráðherra Guðbjarts Hannessonar.

Þar koma mjög skýrt fram áhrifin af kreppunni. Annars vegar er verið að bera saman tölur í upphafi árs 2009 og síðan í upphafi árs 2014, sem sagt yfir fimm ára tímabil. Við sjáum mjög greinilega áhrif kreppunnar á börnin okkar. Það sem kemur einmitt mjög skýrt fram, með því að grafa aðeins dýpra, er að þó að við höfum yfirleitt séð að þetta eru börn einstæðra foreldra skiptir atvinnustaðan verulega miklu máli og síðan sú staða að viðkomandi er á leigumarkaðnum vegna takmarkaðra tekna. Leigumarkaðurinn er þar af leiðandi algjört grundvallaratriði upp á að styrkja félagslega leiguíbúðakerfið sem við erum að gera með frumvarpi um almennu íbúðirnar þar sem við aukum verulega framlögin til þess að hægt sé að byggja fleiri íbúðir.

Síðan eru breytingarnar sem við erum að gera á húsnæðisbótunum. Inni í þeim eru líka auknir fjármunir fyrir sveitarfélögin til að setja inn í sérstöku (Forseti hringir.) húsaleigubæturnar sem eru skildar eftir hjá þeim til að geta stutt við þá sem þurfa sérstaklega á því að halda. Þetta eru þær aðgerðir sem ég hef bent á, en til viðbótar vonumst við til að geta komið fljótlega með nýja fjölskyldustefnu sem hefur verið unnin í nánu samstarfi við ýmis frjáls félagasamtök þar sem eru frekari aðgerðir til að koma til móts við þessi börn.