145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

viðbrögð við skýrslu um fátækt barna.

[10:52]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Ég þakka hv. þingmanni enn á ný. Ég skil vel að hún leggi spurninguna upp með þessum hætti. Ég hef einmitt lagt áherslu á þessi stóru mál og vil fá að nota tækifærið til að hvetja þingið til að vinna eins hratt og vel í þeim og hægt er.

Varðandi viðbrögð nú strax á ég von á því á næstu dögum að undirrita tilraunaverkefni sem hefur verið kallað TINNA og er samstarfsverkefni milli okkar og Reykjavíkurborgar um hvernig hægt sé að aðstoða unga, einstæða foreldra með beinum hætti til sjálfshjálpar, hvernig við getum stutt betur við þessar fjölskyldur, ekki hvað síst börnin, með því að hjálpa foreldrunum. Það er í samræmi við það sem sérfræðingar hafa lagt til að við gerðum. Þetta verður verkefni til tveggja ára og vonandi gefst það nógu vel til að við getum útvíkkað það enn frekar og aðstoðað enn fleiri í þessum hópi.

Ég fól velferðarvaktinni það (Forseti hringir.) sérstaklega á sínum tíma þegar ég endurskipaði hana — og er síðan búin að semja um að Hagstofan greini betur nákvæmlega hverjir þetta eru. Hagstofan hefur hins vegar bent á að það er erfitt vegna þess að fáir eru í þessum hópi, sem betur fer. Við viljum samt fá að vita nákvæmar hverjir það eru þannig að við getum hjálpað þeim raunverulega.