145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

eftirfylgni með verkefnum gegn ofbeldi.

[10:54]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra varðandi samstarfsverkefni ráðuneyta til forvarna gegn ýmiss konar ofbeldi. Fyrst langar mig að spyrja út í verkefnið Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi sem var samstarfsverkefni innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis og fór fram á árunum 2012–2015. Vitundarvakningin átti rætur að rekja til fullgildingar Íslands og stjórnvalda árið 2012 á samningi Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misbeitingu barna sem var samþykktur 2007. Ég kynntist þessu verkefni meðan ég var skólastjóri og fylgdist með framgangi þess og tel að þar hafi verið unnið mjög þarft og gagnlegt starf, m.a. með ýmiss konar fræðsluefni eins og myndunum Fáðu já og Stattu með þér. Þessu verkefni lauk formlega á síðasta ári, eða fyrir um það bil ári. Mig langar að vita hvað tekur við. Hvert er framhaldið?

Þá langar mig jafnframt að spyrja út í framkvæmd formlegs samráðs á landsvísu til að bæta samvinnu og verklag í málum sem tengjast ofbeldi og afleiðingum þess í samfélaginu. Það verkefni er líka byggt á samstarfsyfirlýsingu félags- og húsnæðismálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og innanríkisráðherra sem var undirrituð fyrir meira en ári.

Hvernig er samstarfi félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu- og ákæruvalds undir forustu ráðuneytanna þriggja háttað? Út á hvað gengur samráðið? Hvaða viðfangsefni eru sett í forgang?