145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

eftirfylgni með verkefnum gegn ofbeldi.

[10:56]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þegar verkefninu um vitundarvakninguna lauk þá lögðum við ráðherrarnir þrír sem komum að því, ég, innanríkisráðherra og menntamálaráðherra, mjög mikla áherslu á það að við mundum halda áfram að vinna gegn ofbeldi gegn börnum. Við þurfum líka að átta okkur á því að ofbeldi sem börn verða vitni að eða þurfa að þola getur verið mun víðtækara. Það hefur sýnt sig í þeim tilraunaverkefnum sem við höfum verið með og snúa að heimilisofbeldi og börnum og þeim áhrifum sem koma skýrt fram á börn við þess háttar ofbeldi. Við undirrituðum nýja yfirlýsingu eða samstarfsyfirlýsingu um landssamráð gegn ofbeldi og þar undir eru að sjálfsögðu börnin okkar og mikil áhersla lögð á þau. Við höfum talið mjög mikilvægt að við höldum áfram að sinna þeim verkefnum sem voru undir í vitundarvakningunni og vil ég þá nefna sérstaklega brúðuleiksýninguna Krakkarnir í hverfinu sem ég undirritaði samning núna í desember um að mundi halda áfram þar sem nemendur eru fræddir um ofbeldi gegn börnum og úrræði sem standa þolendum ofbeldis til boða. Við höfum líka verið að huga að því hvernig við getum eflt barnaverndarnefnd og Barnaverndarstofu í því að sinna sínum verkefnum. Það gafst líka svigrúm til þess eftir að Barnahús fór í nýtt húsnæði og við gátum tryggt aukið fé til rekstrarins að huga að því að útvíkka starfsemina þannig að hægt væri að veita einnig þjónustu þeim börnum sem hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, alvarlegu líkamlegu ofbeldi, og veita foreldrum stuðning.

Síðan er ánægjulegt að geta sagt frá því að í dag, einmitt núna klukkan 11, er að byrja vinnufundur þar sem um 100 manns hafa verið boðaðir (Forseti hringir.) sem ætla að fara að vinna útfærslu á þessu landssamráði. (Forseti hringir.) Þarna eru stjórnvöld að taka höndum saman með öllum þeim sem koma (Forseti hringir.) að því að sinna þessu verkefni og koma með fyrstu aðgerðaáætlunina gegn ofbeldi (Forseti hringir.) í íslensku samfélagi.