145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

byggingarreglugerð og mygla í húsnæði.

[11:06]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið. En ég verð nú samt að vera hreinskilinn og segja að ég hefði viljað heyra meira, en ber auðvitað virðingu fyrir því að þetta er óundirbúin fyrirspurn, kannski legg ég bara fram fyrirspurn til skriflegs svars. En mér virtist á svarinu að það væri ekki verið að vinna mjög margt úr þeim tillögum sem komu fram í skýrslunni. Þar eru, eins og ég sagði áðan, tillögur um breytingar á lögum og ráðuneytið verður að beita sér fyrir þeim og koma með þær hér inn og ráðherra getur beitt sér fyrir breytingum á byggingarreglugerð þar sem þarf. Og ég segi það alveg hiklaust, ég hef tekið eftir miklum áhuga ráðherra á þessu máli. Hún ræddi við mig um leið og skýrslan kom fram.

Eitt atriði snýr að forvörnum sem eru mjög mikilvægar til að koma í veg fyrir myglu. Við höfum séð fréttir um nýlega viðbyggingu við BUGL sem er útötuð af myglu og verktakinn sennilega kominn á hausinn þannig að enginn ber ábyrgð.

Hitt atriðið sem er ekki síður mikilvægt er tryggingarmálin. Guðný (Forseti hringir.) Björnsdóttir lögfræðingur skrifaði greinargerð um tryggingar í skýrslunni og bar saman Noreg, Danmörku og Svíþjóð. Það er líka atriði sem er mjög brýnt að ganga í (Forseti hringir.) vegna þess að það er eitt að tapa heilsunni út af myglu. Hitt atriðið er hið mikla fjárhagslega tjón sem (Forseti hringir.) kemur í framhaldi af því og við þurfum að vinna í því líka. Það er spurning hvaða ráðherra er að vinna í því.