145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

byggingarreglugerð og mygla í húsnæði.

[11:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég get alveg viðurkennt að við höfum kannski enn frekar lagt áherslu á það við endurskoðun á byggingarreglugerðinni að finna flöt á því að hér sé hægt að byggja minni íbúðir þannig að unga fólkið geti komist af stað. Þar höfum við meðal annars haft að leiðarljósi stærðina 3 sinnum 25, að reynt verði að byggja 25 fermetra íbúðir sem kosta ekki meira en 25% af ráðstöfunartekjum fólks, hvort sem það leigir eða kaupir, og svo framvegis. Ég viðurkenni að ég hef frekar verið upptekin af því. En með því að endurskoða byggingarreglugerðina sem er núna í umsagnarferli til 10. febrúar erum við að reyna að auka sveigjanleika og reyna að draga úr beinum stjórnvaldsaðgerðum varðandi það hvernig íbúðir eiga að vera og hafa ákveðna sýn á milli mismunandi aldurshópa.

Vitaskuld þurfa íbúðir að vera vandaðar. Það er rétt. En það getur náttúrulega hækkað (Forseti hringir.) byggingarkostnaðinn. Maður verður að gera sér það ljóst.

Það er nú þannig að ég er um þessar mundir að skrifa ritgerð um lækni, Guðmund Hannesson, sem jafnframt er talinn einn fyrsti arkitektinn hér eða skipulagsfræðingur. Hann hafði sína grafskrift að hann hefði kennt Íslendingum að byggja hlý og góð hús.