145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[11:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er stríðsmaður að upplagi og stendur stundum í skuggastríðum, og aldrei talar hann um fríverslun og ESB án þess að sveifla flugu fyrir framan munninn á mér, en aldrei stekk ég á hana.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að Evrópusambandið hefur sannarlega ekki getið sér orð fyrir mikla viðleitni til að gera fríverslunarsamninga, þó að svolítið hafi það kannski breyst hin síðari ár. Samt sem áður er það þannig að ákveðin þverstaða var í máli hv. þingmanns þegar hann vakti athygli á því að við mundum missa mikils varðandi það ef við gengjum í Evrópusambandið. Það er hárrétt hjá honum að allir þeir samningar falla niður sem við höfum gert. Eigi að síður er staðreyndin sú að helftin af ræðu hv. þingmanns var umfjöllun um mjög merkan fríverslunarsamning og kannski þann merkasta sem við höfum séð glitta í, sem er TTIP-samningurinn. Hann er ákaflega mikilvægur og ef við ættum aðild að honum mundi það sennilega bæta hér hagvöxt um hálft til eitt prósent. Það ræði ég kannski hér í seinni ræðu minni.

Það sem mig langar til að ræða við hv. þingmann er fríverslun við Japan. Eðlilega kom hann ekkert inn á það vegna þess að það mál hefur algjörlega legið utan garðs hjá EFTA. Ástæðan er sú að eitt EFTA-landanna, Sviss, hefur gert slíkan tvíhliða samning við Japan. Þess vegna getum við ekki beitt afli EFTA og öllum þeim kostum sem hv. þingmaður rifjaði réttilega hér upp. Þarna er um að ræða mjög mikla hagsmuni fyrir sjávarútveg.

Ég hef hér þing eftir þing flutt tillögur um þetta mál með stuðningi fjölda þingmanna, meira að segja samþykkt einróma í utanríkismálanefnd í fyrra. Aldrei tekst að afgreiða þetta hér í þinginu. Núna vill svo til að sérstakir atburðir eru uppi, þ.e. 60 ára afmæli stjórnmálasambands okkar við Japan og utanríkismálanefnd er að fara til Japans. Telur hv. þingmaður ekki, þó að það tengist kannski ekki beint því efni sem hann var að ræða, að það sé mikilvægt fyrir okkur að gera reka að því að þingið sýni framkvæmdarvaldinu vilja sinn í þessu efni?