145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[11:33]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil hvetja hv. þingmann til að upplýsa fólk af því að það eru svo miklar ranghugmyndir uppi um Evrópusambandið. Eins og hv. þingmaður sagði þá gætum við ekki gert fríverslunarsamninga ef við færum í ESB, til dæmis ekki við Japan sem við eigum að sjálfsögðu að gera, ég er sammála málflutningi hv. þingmanns hvað það varðar.

Ég hef spurst fyrir um þetta opinberlega og mér skilst að vandinn sé sá að Japanar séu ekki tilbúnir í þá vegferð, en allt það sem við getum gert til að gefa skilaboð er mjög gott. En það er gott og mikilvægt að hv. þingmaður, af því að hann hefur trúverðugleika á þessu sviði, og hefur eyra ESB-sinna, segi nákvæmlega frá því að við getum gert fríverslunarsamninga við alla sem við viljum, við getum það ekki ef við förum í ESB og ef við förum í ESB þá hækkar matvælaverð og verð á ýmsum vörum á mörgum sviðum.

Hann nefnir TTIP og ég fór sérstaklega yfir það. Ég er ekki áhyggjufullur yfir því jafnvel þó að við fengjum ekki einu sinni aukaaðild. Ég veit að Bandaríkjamenn hafa áhuga á því, þeir sögðu það beint við okkur. Evrópusambandið er tregara í taumi, það kom fram á fundum í Washington, en við skulum vona að þeir sjái sóma sinn í því að reyna ekki að halda okkur fyrir utan, en þeim finnst nokkuð súrt í broti hversu vel við komumst frá þeirri stöðu sem við erum í; við erum ekki með öll þau gríðarlegu vandamál sem Evrópusambandið er með. En jafnvel þó að við værum ekki aðilar þá njótum við kostanna, um það var ég að vísa í norsku skýrsluna. Það sem við flytjum inn á Evrópumarkað núna fer inn á Bandaríkjamarkað. Það er helst það sem menn fundu að þessu, alla vega Norðmennirnir, og ég hugsa að það sama sé hér, að ójafnari leikur væri í samkeppni norsks sjávarútvegs og þar af leiðandi íslensks og bandarísks ef þeir fengju afslátt af tollunum.