145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[11:37]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg vonlaust að eiga samskipti við hv. þingmann ef hann hlustar ekki á svörin. Ég lýsti mig sammála því sem hann sagði varðandi fríverslunarsamning við Japan. Ég veit ekki hvort ég þurfi að senda skriflegt bréf til hv. þingmanns þannig að hann geti þá rætt um þessa hluti eins og þeir koma frá mér. Það er engin deila um það.

Ég nefndi að ég hefði sömuleiðis tekið þetta upp og hefði fengið þær niðurstöður, eftir formlegum eða óformlegum leiðum, að ekki væri áhugi hjá Japönum, en við eigum að nota öll tækifæri sem við getum til að lýsa yfir áhuga á fríverslunarsamningi við Japan. Ég veit ekki hvort ég geti sagt þetta eitthvað skýrara.

Ég hrósaði hv. þingmanni fyrir hreinskilnina þegar kom að ESB og hvatti hann til að segja frá þessu. Ég fullyrði, virðulegi forseti, að málflutningur þeirra aðila sem vilja ganga í ESB hefur ekki verið með þeim hætti og þess vegna hvet ég hv. þingmann til að útskýra fyrir því fólki sem hefur látið glepjast, vegna þess að það hefur ekki fengið réttar upplýsingar, að upplýsa um það hvers konar fyrirbæri ESB er þegar kemur að viðskiptamálum. Hv. þingmaður lýsti því réttilega hér að ESB hefði ekkert verið sérstaklega frægt eða þekkt fyrir að berjast fyrir fríverslun í heiminum. Ég hvet hv. þingmann til að upplýsa fólk um það.

Ég veit ekki hversu mikið ég á að standa upp og hrósa hv. þingmanni fyrir andsvarið, en ég ætla að halda því áfram og hvetja hann til dáða, vegna þess að það eru miklar rangfærslur uppi í almennri umræðu um Evrópusambandið og viðskiptastefnu þess. Hv. þingmaður, sem þekkir málið vel, kom hér og staðfesti að Evrópusambandið er alla jafna ekki aðili sem er að berjast fyrir fríverslun, er tollabandalag. Ef við förum inn þá hækkar verð á ýmsum vörum hjá okkur, vegna þess að þá þurfum við að taka upp tolla sem við höfum ekki núna og allir fríverslunarsamningarnir sem við gerum munu sjálfkrafa detta út, þar með talið fríverslunarsamningurinn við Kína sem hv. þingmaður kláraði sem hæstv. utanríkisráðherra.