145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[11:42]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Andersen fyrir andsvarið. Það er rétt, ég kom því ekki að í ræðu minni áðan, ég held að ég hafi gert það síðast en það er sjálfsagt að fara yfir það aftur. Framan af var það þannig að Evrópusambandið lét EFTA-ríkin ekki fá upplýsingar þrátt fyrir að eftir því væri leitað. Það voru Bandaríkjamenn sem gerðu það. Það var svolítið sérkennilegt í öllu þessu samstarfi á Evrópuvettvangi að Bandaríkjamenn skyldu vera fúsir og viljugir til þess að upplýsa EFTA-ríkin um hvað væri í gangi, en ekki Evrópusambandið.

Í ferð okkar til Bandaríkjanna spurði ég um aukaaðild. Þá litu fulltrúar Bandaríkjanna þannig á að það væri partur af stærra máli og þeir vildu fá eins mörg ríki inn og mögulegt væri. Fulltrúi Evrópusambandsins á sama fundi lagði það á sig að svara því að ekki væri komin nein niðurstaða í þessi mál, hann var nú ekki einu sinni í pallborði til að fá spurningarnar. Það var ekki þannig að menn væru tilbúnir af hálfu ESB til að skuldbinda sig til þess að hleypa fleirum inn.

Við höfum ávallt spurt um þetta atriði og fengið ýmsa aðila hjá Evrópusambandinu sem að þessum málum koma til að svara því og sömuleiðis spurt ráðherra út í þessi mál. En á síðustu fundum hefur viðhorf Evrópusambandsins breyst. Eins og staðan er núna munu þeir með formlegum hætti upplýsa EFTA-ríkin, og þá vísa ég bara í síðustu fundi sem við höfum haldið af því að við höfum haft þá almennu reglu að taka þessi mál alltaf upp. Af augljósum ástæðum, þ.e. út af stærð þeirra, hefur ekki verið kvartað undan framkomu Evrópusambandsins gagnvart EFTA-ríkjunum eins og var hér fyrir einhverjum mánuðum eða missirum síðan.