145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[11:44]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er nefnilega mjög mikilvægt að EFTA-ríkin fái upplýsingar um stöðu viðræðnanna frá báðum hliðum. Ég hvet þingmannanefnd Íslands að minnsta kosti til þess að gera gangskör að því að ýta sérstaklega á það.

En að öðru leyti hvað varðar fríverslunarviðræðurnar þá er eðli fríverslunarsamninga afar mismunandi. Þeir eru afar víðtækir almennt, fjalla um tolla og aðra þætti. Ég ætla nú ekki að gera tolla að umtalsefni hér. En eitt það mikilvægasta í þessum samningi er sú viðleitni að ná fram samkomulagi um gagnkvæma viðurkenningu á stöðlum. Það er nefnilega oft galli við fríverslunarsamninga eða tollabandalög að menn sammælast um eitthvert eitt kerfi. Með því eru menn fráleitt að auka frelsi í viðskiptum heldur þvert á móti læsa þeir sig oft inni í einhverju einu kerfi.

Þess vegna er ánægjulegt að þessi samningur, TTIP-viðræðurnar, skuli miða að því að ná fram samkomulagi um gagnkvæma viðurkenningu á alls kyns stöðlum.

Mig langaði að vita hvort hv. þingmaður gæti farið hér nokkrum orðum um afstöðu EFTA-ríkjanna fram að þessu. Er munur á afstöðu einstakra EFTA-ríkja til samningaviðræðnanna? Og ef svo er, felst munurinn þá einkum og sér í lagi í landbúnaðarkaflaviðræðum, vegna þess að við vitum að það strandar alltaf allt á landbúnaðarmálum?

En fyrir utan slík tollaatriði, er mikill munur á afstöðu EFTA-ríkjanna gagnvart þessum viðræðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins?