145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[11:46]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum ekki alveg fagnað strax, af því að hv. þingmaður vísaði til þess að samningaviðræðurnar gengju út á að niðurstaðan yrði sú að menn væru með gagnkvæma viðurkenningu á stöðlum.

Það eru tveir skólar. Það er annars vegar sú leið og ég er sammála hv. þingmanni um að það er leiðin sem maður vill sjá. Síðan eru líka uppi hugmyndir um að vera bara með samræmda staðla og það er auðvitað stórhættuleg hugmynd. Þetta er alveg nógu slæmt eins og það er í dag. Það eru margir kostir. Það voru brotnar niður ýmsar viðskiptahindranir þegar menn fóru af stað með þetta. En ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um að þetta hafi gengið of langt og hætt að vera opnun fyrir viðskipti og frekar verið hömlur á allt milli himins og jarðar. En við getum rætt það seinna. Það er ekki komin niðurstaða í það.

Varðandi EFTA-ríkin og afstöðu þeirra mundi ég segja að Sviss væri það land sem hefði mestu reynsluna, áratuga-, jafnvel árhundraðareynslu af þessum málum og manni finnst þeir vera að nálgast þetta mjög praktískt út frá sjónarmiðum sínum.

Norðmennirnir hafa rætt þetta meira en við, gert fleiri skýrslur og úttektir en við höfum gert, og ræða þetta meira, virðist vera, á opinberum vettvangi. Miðað við þær útlistingar sem við sjáum hefðu menn ekki áhyggjur af því alla jafna, að öllu óbreyttu, þótt við værum ekki aðilar að þessu út af því að ef menn fengju til dæmis gagnkvæma viðurkenningu á stöðlunum mundi það auka tækifæri fyrir fyrirtæki okkar til að flytja út á Ameríkumarkað.

Hins vegar hafa þeir áhyggjur af sjávarútveginum. Þeir hafa áhyggjur af því að bandarískur sjávarútvegur geti flutt tollfrjálst inn á Evrópumarkaðinn en Noregur muni ekki geta gert það.

En stóra málið er að ég held að allir séu meðvitaðir um að við verðum að vera þátttakendur í þessu með einhverjum hætti. Menn reyna að koma sjónarmiðum sínum að. Hv. þingmaður nefndi landbúnaðinn en EFTA-ríkin hafa alla jafna, alla vega með landbúnað í sínum eigin ríkjum, verið frekar (Forseti hringir.) verndarsinnuð. En við komumst ekki hjá því, öll þau EFTA-ríki sem eru með útflutning, að taka þátt í þessu. Ég held að allir séu meðvitaðir um það.