145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[11:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir alveg prýðilega ræðu áðan sem krydduð var hans persónulegu skoðunum á ýmsum stórum samböndum, sem vissulega hafa verið umsvifamikil í heimsviðskiptum á sviði hinna stóru mála. Ég ætla örlítið áður en ég ræði EFTA að drepa á þetta mál sem mér er mjög hugleikið, sem er fríverslun við Japan. Þetta mál hefur verið flutt á þremur þingum og það hefur aldrei skort stuðning við það. Það hefur meira að segja komist svo langt að utanríkismálanefnd hefur afgreitt málið frá sér en það hefur legið hér, með fullkomlega óskiljanlegum hætti, í þinginu óafgreitt þótt ekki væri nokkur einasti maður á móti því. Ég hef aldrei skilið það og hugsanlega er staðan þannig og stafar þetta af því sem kom fram hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að stjórnkerfið og hugsanlega framkvæmdarvaldið hafa bitið það í sig að Japanar hafi ekki áhuga á að gera fríverslunarsamning við Ísland. Það kann vel að vera, þeir hafa miklu minni hagsmuni af því en við vegna þess að innflutningur þeirra til Íslands sætir miklu lægri tollum, í flestum tilvikum, stórum vöruflokkum, engum, á meðan við greiðum umtalsverða tolla af meginhluta útflutnings okkar.

Lítið ríki verður alltaf að standa fast á hagsmunum sínum og það dugar mér ekki þegar ráðherrar sem fara með framkvæmdarvaldið vinna að svona málum með hangandi hendi vegna þess að það kann að vera að sú skoðun hafi verið sett fram af hálfu Japana að þeir hafi ekki áhuga á málinu. Ég kannast alveg við það. Þeir hafa ekki sett fram giska mikinn áhuga á þessu máli en lítið ríki á að vera eins og húsleki, það á aldrei að hætta að vinna að hagsmunum sínum og dropinn holar steininn.

Í þeim tillögum sem hafa verið fluttar um málið hefur verið bent á að þetta ár sem nú er í hönd farandi, 2016, skipti máli vegna þess að það er þetta afmælisár í samskiptum ríkjanna og slík ár eru oft notuð til þess að slá í gadda frekara samband ríkja. Hvað er betra en að gera það með því að samþykkja fríverslunarsamning millum Íslands og viðkomandi ríkis, í þessu tilviki Japans? Í öðru lagi er það þannig að vegna viðsjáa sem hafa stofnast við Suður-Kínahaf, þar sem Japan eftir seinni heimsstyrjöldina hefur ekki byggt upp neitt herveldi en finnst sem ýmsum öryggisskyldum þess sé ógnað af sterkum nágranna sem er Kína, þá hafa Japanar leitað eftir sérstökum tengslum við NATO-ríki. Það er rétt að rifja upp að Shinzo Abe forsætisráðherra kom í sérstaka heimsókn til höfuðstöðva NATO beinlínis til þess að falast eftir nánari samvinnu, sem vitaskuld felur það í sér að ef slægi í brýnu hefðu þeir einhvers konar hald af Atlantshafsbandalaginu. Þar skiptir það einfaldlega máli að við erum stofnaðilar að því og höfum rödd þar og höfum meira að segja atkvæðisrétt ef til þess kemur. Þó að lítið ríki sé höfum við vissulega ýmislegt á hendi.

Rétt er svo jafnframt að geta þess að samkvæmt þeim skilgreiningum sem Japanar sjálfir hafa lagt fram um þau ríki sem þeir vilja gera fríverslunarsamninga við eru það í fyrsta lagi stór ríkjabandalög og hins vegar ríki sem hafa yfir miklum hrávörum að ráða, auðlindum. Við höfum í 30 ár átt mikil samskipti við Japan. Við höfum að segja má í samvinnu við Japana byggt upp orkuiðnað okkar. Nánast hver einasta túrbína sem er að finna við orkuframleiðslu á Íslandi er japönsk, fjármögnuð með japönskum lánum. Kerfið hefur hins vegar verið þannig hjá Japönum að þeir hafa ekki haft áhuga á neinum fríverslunarsamningum. Þeir hafa verið lokað land og það er ekki fyrr en með fyrra kjöri Shinzos Abes forsætisráðherra sem það gjörbreytist þegar hann setur fram sína samúræísku sýn á framtíðina um bogana þrjá og örvarnar þrjár og ein af örvunum sem hann átti einmitt að láta ríða af bogastreng sínum var aukin utanríkisverslun. Það er þess vegna sem ríki standa í röðum til að ná verslunarsamningi við Japan en Ísland er þar hvergi. Það virðist sem enginn áhugi sé á því. Það er einungis einn handhafi framkvæmdarvaldsins, Sigurður Ingi Jóhannsson, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hefur staðið í ístaðinu þar og hefur gert það vel. Af öðrum hefur lítið spurst þótt menn hafi farið til Japans og tekið á móti japönskum ráðherrum.

Ég rifja það upp að þegar hingað kom aðstoðarutanríkisráðherra Japans, Makino, og fulltrúar allra þingflokka áttu með honum fund þá undraðist hann það hversu einbeitt sú afstaða var sem kom fram hjá öllum fulltrúum þingflokkana varðandi það að ná fríverslunarsamningi. Hann sagði á þeim fundi að hann hefði ekki orðið var við þá afstöðu hjá íslenskum ráðherrum, svo það komi alveg skýrt fram. Það dugar mér ekki að menn setji það fram sem afsökun, eins og heyrðist í ræðu áðan, að það væri ekki áhugi á því hjá Japan. Það er alltaf þannig þegar menn byrja á samningum, sérstaklega ef það hallar á annan, að þá koma þau viðhorf fram. Það er partur af samningatækni og þá halda menn áfram og tefla fram rökum sínum og beita þeim vopnum sem hægt er að beita. Þetta var nú um Japan, herra forseti.

Ég er eins og hv. framsögumaður áðan mikill áhugamaður um frjálsa verslun. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það séu sérstök tengsl á milli þróunarsamvinnu og frjálsrar verslunar og tel að engin þróunarsamvinna sé eins góð og sú sem felst í því að heimila frjálsa verslun. Ég tel að ekkert geti stutt og bætt hag örbjarga ríkja í Afríku frekar en að reyna að verða þeim úti um leiðir til þess að koma vörum sínum á markað hjá betur megandi ríkjum. Ég hef margoft sagt það í þessum ræðustól að ég tel að það sé einn helsti löstur Evrópusambandsins hvernig það hefur þverskallast við slíku. Það höfum við Íslendingar hins vegar ekki gert. Við höfum mjög merkilega fríverslunarsamninga við ríki í Afríku, sem að vísu skipta ekki miklu máli en það er táknrænt um það hvernig ríki í hinum vestræna heimi hefur staðið upp og með vissum hætti rutt þar brautina.

Á síðasta kjörtímabili var það þannig að ég sem utanríkisráðherra lagði mjög mikla áherslu á fríverslunarsamninga. Við hófum þá eina sex nýja samninga og við lukum mjög mikilvægum fríverslunarsamningum. Við lukum þeim samningi sem hv. þingmaður rifjaði upp áðan, fríverslunarsamningi við Kína. Rétt er að rifja upp að það er einn af tvíhliða samningum sem EFTA-ríki hafa gert og var fyrsti tvíhliða samningurinn sem gerður var. Það var líka lokið fríverslunarsamningi við Hong Kong, Kína. Sömuleiðis við Serbíu. Við gerðum samning við Úkraínu, við hófum samninga við Malasíu, Víetnam, Filippseyjar. Við tókum fyrstu skrefin varðandi Mjanmar. Þar sem ég saknaði eins í ræðu hv. þingmanns — og ber ekki að skilja það svo að ég dragi nokkuð í efa hans góða vilja og hef sjálfur séð það sem utanríkisviðskiptaráðherra á fundum með honum og fleirum Íslendingum erlendis um þessi mál að hugur hans og atbeini hefur alltaf fylgt þessari viðleitni — get ég ekki annað en spurt hv. þingmann: Hvað er núverandi handhafi framkvæmdarvalds að gera í þessum efnum? Hvaða mál eru það sem verið er að berjast fyrir varðandi fríverslun innan EFTA? Hv. þingmaður nefndi Mercosur. Ég man ekki eftir því að Ísland hafi á umliðnum þremur árum haft frumkvæði innan EFTA að neinum fríverslunarsamningum eins og jafnan var þó hátturinn á áður. Einn af merkustu fríverslunarsamningum sem EFTA hefur gert er samningurinn við Kína. Hvar hófst sá samningur? Hann hófst hér í þessu húsi þegar íslenskir þingmenn áttu fundi með kanadískum þingmönnum sem hingað komu vegna tengslanna sem liggja millum Vestur-Íslendinga og okkar sem hér búum. Það var uppsprettan að fríverslunarsamningnum við Kanada.

Mig langar þá til að spyrja hv. þingmann, og kem kannski að öðrum þáttum í síðari ræðum mínum: Hvað líður gerð fríverslunarsamnings við Indland, eru engar fréttir af honum? Í öðru lagi: Hvað líður uppgerð og upptöku á fríverslunarsamningum við Kanada sem hæstv. utanríkisráðherra lýsti á sínum tíma? Getur hv. þingmaður sagt okkur einhverjar fréttir af því?

Ég ætla ekki að fara frekar yfir það en ég sakna þeirrar áherslu sem var á þessum málum á árunum 2009–2013. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að ég var fullkomlega sekur um að vinna það verk sem mér var falið af Alþingi, að sækja um aðild að Evrópusambandinu. En ég lét ekki deigan síga varðandi fríverslunarsamninga við önnur ríki, svo það liggi algjörlega skýrt fyrir. Það finnst mér sem hafi algjörlega gleymst í tíð þessarar ríkisstjórnar og ég hvet hinn vígreifa baráttumann fyrir frjálsri verslun, hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, til að ljá þeim sem vilja taka upp þetta merki þunga sinn og veita ríkisstjórninni aðhald í þeim efnum, alveg eins er ég viss um að hann notar stöðu sína innan EFTA-nefndarinnar (Forseti hringir.) úti í löndum til að gera það líka. Það þarf að vekja íslensku ríkisstjórnina af sínum væra blundi gagnvart gerð fríverslunarsamninga.