145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[12:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við getum alla vega fallist í faðma, ég og hv. þingmaður, yfir síðari ræðu hv. þingmanns. Mér þykir vænt um að hann tekur málaleitan minni um stuðning hans alvarlega varðandi Japan. Ég væri ekki hér að þenja mig í ræðustól yfir þessu máli nema vegna þess að mér þykir til um atgervi hv. þingmanns. Hann er fylginn sér og hann hefur áhrif sem ég hef ekki í stjórnarliðinu. Mér finnst vanta að veita hæstv. utanríkisráðherra aðhald um þetta mál. Það hefur ekkert komið fram neinn sérstakur áhugi í ríkisstjórninni á þessu máli nema hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Við höfum á síðustu árum, ég með fyrirspurnum en líka með þátttöku í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra, þráfaldlega tekið upp nauðsynina á því að uppfæra kanadíska samninginn. Það er engin uppfynding okkar hér, það er atvinnulífið sem óskar eftir því. Sagt hefur verið frá því að því átti að vera lokið fyrir lok síðasta árs í síðasta lagi, reyndar einu sinni áður átti því að vera lokið fyrir lok ársins 2014. Er nema von að maður spyrji. Ég veit að hv. þingmaður gengur af hörku eftir hagsmunum Íslands á erlendum vettvangi, ég bið hann um að gera það líka á innlendum vettvangi. Sama gildir um Mexíkó og muni ég rétt hefur líka verið klárt um nokkurt skeið að uppfæra þarf samninginn við Tyrkland, alveg eins og hv. þm. Sigríður Á. Andersen benti á áðan og ræddi hér staðla. Hinar fyrri kynslóðir þessara samninga tóku kannski ekki á þeim þáttum sem í dag skipta jafnvel meira máli en beinlínis lágreistir tollamúrar. Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram og sömuleiðis legg ég áherslu á það að maður verður ekki var við að það sé (Forseti hringir.) mikið að gera hjá EFTA nákvæmlega núna, þ.e. framkvæmdastjórn EFTA, varðandi nýja fríverslunarsamninga.