145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[12:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það var einungis eitt atriði sem ég átti ólokið að reifa og komst ekki að í fyrri ræðu minni. Það voru hagsmunir okkar gagnvart Bandaríkjunum og sömuleiðis gagnvart hinum hugsanlega samningi sem kallaður er TTIP og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði í ræðu sinni áðan að menn byggjust við að yrði lokið einhvern tíma seinni part árs 2017. Nú er ég kannski ekki jafn bjartsýnn á lyktir þess samnings og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Ég er honum hins vegar sammála um að þar er um að ræða breytingu sem gæti skipt mjög miklu máli varðandi viðskipti millum Evrópu og Bandaríkjanna. Þá er ekki bara um að ræða tolla sem munu í sumum tilvikum þó lækka verulega. Það sem ég tel að skipti mun meira máli er akkúrat það atriði sem hv. þm. Sigríður Andersen drap á hér fyrr í dag, þ.e. samræming staðla. Þar eru erfiðustu hindranirnar, að vísu tæknilegs eðlis en þó stundum miklu meiri múr gegn eðlilegu flæði viðskipta en sjálfar tollahindranirnar. Þetta held ég að kunni að leiða til þess að það verði verulegur ávinningur af þessum samningi.

Þá spyr maður: Hvað með Ísland? Hvernig verður staða Íslands? Þá þurfum við fyrst að skoða hvers vegna við erum yfir höfuð að nota EFTA til þess að gera fríverslunarsamninga. Jú, við stöndum utan við Evrópusambandið, þ.e. þau ríki sem þar eru, og samningar okkar hafa, a.m.k. undanfarin 15 ár, í vaxandi mæli fallið í þann farveg að við erum að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja innan þessara þriggja ríkja gagnvart fyrirtækjum sem þau keppa við innan ESB. Að því marki skiptir þetta verulega miklu máli.

Ef við gefum okkur síðan að samningar takist milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins og úr verði mikill fríverslunarsamningur þá gefur það augaleið að ef ekkert verður að gert þá hallar á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og þeirra fyrirtækja sem starfa innan vébanda EFTA-ríkjanna. Það þýðir einfaldlega að fyrirtæki sem þau keppa við innan Evrópusambandsins munu hafa betri stöðu að því er varðar þann markað sem er að finna í Bandaríkjunum. Þess vegna skiptir verulega miklu máli að við vinnum að því að skapa einhvers konar stöðu til að jafna þennan mun.

Við tökum eftir því að ríki sem eiga ekki aðild að þessum samningaviðræðum fara mismunandi leiðir eða eru að íhuga mismunandi möguleika. Tyrkir sem hafa eiginlega frá örófi alda, liggur við að ég segi, verið umsóknarríki að Evrópusambandinu hafa til dæmis æskt þess að fá aðild að samningnum í krafti þess að Tyrkland er NATO-ríki og umsóknarríki. Það er röksemdafærsla sem menn geta fett fingur út í og ég ætla ekkert að fara út í, hún er ekki fullkomin. Í annan stað er hægt að fara þá leið sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi hér áðan, að Íslendingar fengju einhvers konar aukaaðild að þessum samningi.

Mig langar þá til að spyrja hv. þingmann: Er honum kunnugt um það hvort íslensk stjórnvöld hafi átt í formlegum viðræðum við viðeigandi aðila um að Ísland fái aukaaðild að þessum samningi? Mér er það mjög til efs að það muni ganga. Ég segi hins vegar: Í þessari stöðu er þetta steinn sem þarf að klappa og menn eiga ekki að taka nei sem gilt svar, alveg eins og menn eiga ekki að láta það tálma för sinni gagnvart fríverslunarsamningi við Japan þó að Japanar blikki ekki endilega viðsemjandann strax í fyrsta skrefi.

Meðan ég man, til þess að ég taki einn botnlanga hér, frú forseti, varðandi Japan. Það gengur náttúrulega ekki að við látum bjóða okkur að Japanar segi nei ef við óskum formlega eftir fríverslunarviðræðum þegar horft er til þess að þeir hafa ekki komið nægilega vel fram við okkur á öllum sviðum. Við erum til dæmis eina ríkið á Norðurlöndum sem hefur ekki fengið loftferðasamning við þá. Þetta finnst mér skipta máli.

Svo ég komi aftur að TTIP sem hv. þingmaður nefndi sem þriðja möguleikann, þ.e. fríverslunarsamning við Bandaríkin, hefur það verið reynt bæði af fyrri ríkisstjórn og ríkisstjórninni þar áður og líka þeim sem á undan fóru. Staðreyndin er einfaldlega sú að Bandaríkjamenn hafa ekki áhuga nema það komi (Forseti hringir.) ákveðin fríðindi varðandi innflutning á landbúnaðarvöru frá Íslandi og það er ekki kleift. Íslendingar hafa ekki viljað það.

Telur hv. þingmaður að það sé raunhæfur möguleiki að ná fríverslunarsamningi við Bandaríkin?