145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[12:14]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór yfir margt í ræðunni og ég þakka honum fyrir að taka þátt í þessari umræðu og sömuleiðis hv. þm. Sigríði Andersen.

Mér finnst þetta mál vera af slíkri stærðargráðu, viðskiptastefna Íslands, að það þurfi að ræða vel. Viðskiptastefna Íslands hverfist í kringum EFTA-aðildina, fríverslunarsamninga og auðvitað EES-samninginn. Ég ætla ekki að skamma þá aðila sem taka þátt í umræðunni með málefnalegum hætti sem báðir hv. þingmenn gerðu en vek athygli á því að við erum samt sem áður bara þrjú sem höfum tekið þátt í þessari umræðu sem varðar gríðarlega hagsmuni þjóðarinnar. Þetta eru gríðarlegir hagsmunir.

Það er nefnilega magnað með EFTA-ríkin, Sviss, Noreg, Ísland og Liechtenstein, eins ólík ríki innan sama heimshluta og ég held að geti orðið, en þau eiga tvennt sameiginlegt. Annars vegar eru þetta ríkar þjóðir og síðan er hitt að það er tiltölulega stutt síðan þær voru allar mjög fátækar. Það er algjörlega öruggt að allar þessar þjóðir væru enn fátækar ef þær hefðu ekki aðgang að erlendum mörkuðum.

Hv. þingmaður vísaði í þróunaraðstoð og það er enginn vafi á að það besta sem hægt er að gera í þróunaraðstoð er að hleypa þessum þróunarríkjum inn á okkar markaði. Það er enginn vafi á því. Ein af ástæðunum fyrir því að ég er mjög lítið hrifinn af Evrópusambandinu er sjónarmið þess í þeim málum.

Hv. þingmaður kom inn á fríverslunarsamning og Bandaríkin og ég kem að því, ég mun svara spurningu hv. þingmanns varðandi samskiptin við Bandaríkin og TTIP. Það er mjög margt að í Bandaríkjunum og við fáum reglulega af því fréttir en þetta er eina stórveldið í heiminum og það er algjörlega óskiljanlegt hvernig við höfum dritað niður embættismönnum hjá utanríkisráðuneytinu úti um alla Evrópu eins og enginn sé morgundagurinn en í Washington, þar sem er eina stórveldið, erum við með tvo diplómata, frábæra diplómata. En Bandaríkin eru stórveldi. Þar liggja okkar hagsmunir og það er algjörlega óskiljanlegt hvernig þessi sérkennilegi ESB-halli er á utanríkisþjónustunni. Flestar þjóðir nýta sér til dæmis með skipulegum hætti, þá er ég að vísa í Norðurlöndin, og rækta sérstaklega tengslin við fólk í Bandaríkjunum sem á ættir að rekja til Norðurlandanna. Við eigum mjög mikil tengsl þangað, það var einn fjórði eða fimmti hluti þjóðarinnar sem flutti til Vesturheims um þarsíðustu aldamót og vesturfararnir skiptust jafnt á milli Bandaríkjanna og Kanada. Við eigum meiri tengsl við Vestur-Íslendinga í Kanada en við ættum að rækta enn frekar tengslin við þá sem eru í Bandaríkjunum. Þetta er margt fólk sem er vel inni í stjórnkerfinu og í stjórnmálunum og það væri mikill fengur að því ef við værum í góðum samskiptum við það því að ákvarðanirnar liggja ekki nema að litlu leyti í embættismannakerfinu. Þær liggja meðal annars hjá kjörnum fulltrúum og sérstaklega senatorum. Mér finnst að við höfum sýnt í þessu eins og svo mörgu öðru ákveðinn barnaskap í íslensku utanríkisþjónustunni.

Hv. þingmaður vísaði til Tyrklands, en Tyrkir telja sig vera í mjög slæmri stöðu varðandi TTIP vegna þess að þeir eru í tollabandalagi við ESB. Þeir segja: Að öllu óbreyttu fáum við engan aðgang að samningnum. Þá gerist ekkert annað en að tollar lækka á bandarískum vörum inn á tyrkneska markaðinn en við fáum ekki lækkunina á móti í Bandaríkjunum. Við erum ekki í tollabandalagi við Evrópusambandið og erum þess vegna ekki í þeirri stöðu.

Ég fór sérstaklega yfir það að ég hefði ekki áhyggjur af því, stærstu áhyggjurnar væru ekki að við yrðum ekki aðilar að TTIP. Af hverju? Vegna þess, eins og hv. þingmaður nefndi og hv. þm. Sigríður Andersen nefndi og ég fór líka yfir það í framsögu minni, að þetta snýst minnst um tolla. Þetta snýst um tæknilegar viðskiptahindranir. Sumar vörur eru þess eðlis að við erum ekkert að fara að framleiða þær. Eftir því sem ég best veit hefur einn íslenskur bíll verið framleiddur og það var 1977 og við erum ekkert að fara að detta inn í þá framleiðslu. Það er hins vegar algjörlega óþolandi að við þurfum að greiða miklu hærra verð fyrir bandaríska bíla en við þyrftum að gera út af einhverjum tæknilegum viðskiptahindrunum Evrópusambandsins.

Síðan er spurning hvað gerist ef þessir samningar nást. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að því leytinu til að það er ekkert sjálfgefið að svo verði. Ég held að vísu að ástæðan fyrir því að Evrópusambandið er að ræða þessi mál sé neyðin. Neyðin í Evrópusambandinu er slík, ástandið er slíkt, að þeir verða að gera þetta, ekki vegna þess að þeir vilji það. Ef þeir hefðu viljað fríverslun eins og hv. þingmaður vísaði í að þeir hafi nú ekki verið frægir fyrir að vilja þá værum við örugglega komin í aðra lotu hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO. Ekki vegna þess að Evrópusambandið hafi verið á móti því heldur vegna þess að þeir hafa ekki keyrt það áfram. Þeir hafa ekki fylgt Bandaríkjunum í því.

Einu skiptin sem hafa verið gerðir einhverjir alvörusamningar á þeim vettvangi, hvort sem það er GATT eða WTO, hafa verið vegna þess að Bandaríkjamenn hafa haft frumkvæði að því og fylgt því eftir. Maður var að vonast til þess að Evrópusambandið, þessi stóra viðskiptablokk, mundi taka þátt en þeir hafa verið frekar til baka. Það gerir að verkum að Bandaríkjamenn fara sínar eigin leiðir. Mér finnst hins vegar líklegast út af ástandinu í Evrópu að menn muni ekki komast hjá því, menn muni ekki þora öðru en að gera þann samning af hálfu Evrópusambandsins á einhverjum tímapunkti, einfaldlega út af samkeppni á svæðum eins og ég nefndi í Asíu og í Kyrrahafinu. Eins og ég nefndi áðan hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum áratugum, tiltölulega fáum, að Bandaríkjamenn hefðu byrjað að gera slíka samninga Kyrrahafsmegin, þeir hefðu alltaf byrjað Atlantshafsmegin. En út af breyttu ástandi í heimsmálunum og breyttri heimsmynd er staðan sú að við erum númer tvö. Við erum ekki númer eitt ef við teljum okkur sem Evrópumenn.

Virðulegur forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði mig um það hvort líklegt væri að við gætum verið með aukaaðild og hvort við færum fram á það. Ég vísaði í það áðan en það er sjálfsagt að fara yfir það aftur, að fram kom á þessum fundum í máli samningamanna Bandaríkjanna að þeir hefðu áhuga á því að aðilar eins og EFTA-ríkin gætu verið með aukaaðild. Það væri byggt inn í samninginn að þjóðir gætu sett sig inn á hann. Það voru þær upplýsingar sem við fengum frá þeim aðilum sem sáu um samningamálin af hálfu Bandaríkjanna, að þannig vildu þeir sjá þetta. Fulltrúar Evrópusambandsins sem voru á þessum fundi mótmæltu því að það væri komin niðurstaða í þetta, en það væri áhugavert ef Evrópusambandið kæmi í veg fyrir að EFTA-ríkin gætu með þessum hætti orðið aðilar að þessu fríverslunarfyrirkomulagi. Við þurfum auðvitað að bíða og sjá og sjá hvað gerist.

Eitt af stóru málunum sem hefur hamlað fleiri lotum við Alþjóðaviðskiptastofnunina og heimsviðskipti er landbúnaðurinn. Landbúnaðarmálin eru auðvitað ekki þau einu, en þau eru eitt af stóru málunum. Ég sé möguleika þar fyrir okkur Íslendinga því að við höfum ákveðna sérstöðu í landbúnaðarmálum. Við og Norðmenn erum með langminnstu sýklalyfjanotkunina í landbúnaði í Evrópu og það er aðallega vegna þess að í hefðbundnum búvörum okkar er lítið notað af sýklalyfjum. Við eigum að leggja áherslu á það og kynna fyrir fólkinu í landinu. Það eru sjálfsögð réttindi neytenda að við fáum að vita hvað er í vörunni.

Varðandi þann stuðning sem við erum með þá eigum við að vera með stuðning við hefðbundnar landbúnaðarvörur en eins og landbúnaðarpólitíkin okkar er byggð upp núna þá erum við fyrst og fremst að vernda hvíta kjötið, verksmiðjuframleiðsluna. Þetta er algjörlega geggjað. Þannig að ég sé bara tækifæri á þessu sviði. Ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson vill borða hormónakjöt eða sýklalyfjakjöt þá finnst mér að hv. þingmaður eigi að hafa val um það. Ég vil hins vegar vita hvað er í vörunni og mér hefur fundist íslensk verslun hafa brugðist í því að upplýsa okkur neytendur hvað þetta varðar. Ég borða þá bara minna af kjötinu þótt ég þurfi að borga meira fyrir það því að heilnæm vara, framleiðsla, er eitthvað sem ég vil velja á minn disk og hjá mínum nánustu og ég er sannfærður um að ég er ekki einn um það. Þannig að ég sé ekkert nema tækifæri í þessu. Mér finnst við hins vegar ekki vera að nýta þau. TTIP-samninginn sé ég fyrst og fremst fyrir mér sem mikið tækifæri fyrir Íslendinga. Ef menn renna á rassinn með það þá hefur, held ég, eitthvað mikið gerst á þeim vettvangi. Ég veit ekki hvernig mál þróast.

Við vitum heldur ekki hvað mun gerast ef Bretland t.d. færi út úr Evrópusambandinu, sem mér finnst ólíklegt en gæti orðið, eða ef menn mundu breyta Evrópusambandinu eitthvað til þess að reyna að halda Bretum inni. Ef þeir færu út, ef þeir væru t.d. aðilar að EFTA, sem ég held að væri besta lausnin, þá held ég að við mundum sjá aukinn kraft í fríverslun í heiminum. Jafnvel þó að ESB hefði aðra skoðun á því væri erfitt fyrir þá að hamla á móti því. Ef jafn stór aðili og Bretland væri kominn inn og væri umhugað um að gera mikið af fríverslunarsamningum og auka fríverslun í heiminum mundi það gera tollabandalaginu erfitt fyrir að vera með þá afstöðu sem það hefur haft fram til þessa.