145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[12:27]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Það er ekki slæmt fyrir Ísland ef Bretland fer út úr ESB. Ég held að það væri bara mjög gott fyrir Ísland. Reyndar held ég að það væri bara mjög gott fyrir Evrópu ef Bretland færi út úr ESB. Ég held að menn séu komnir í öngstræti í ESB-samstarfinu og ekkert dugar til þess að laga það nema byltingarkenndir hlutir.

Núverandi ástand er mjög alvarlegt og ekkert bendir til þess að það sé að fara að lagast.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að móta viðskiptastefnu. Þess vegna flyt ég nú aftur frumvarp mitt um það.

Ég hef ekki heyrt neinn kenna Bandaríkjunum um Doha. Hverjir fóru að gera stóra fríverslunarsamninga þegar Doha-viðræðurnar gengu ekki upp? Jú, það voru Bandaríkjamenn. Ég held hins vegar að margir, þar á meðal ESB, hafi notað það sem afsökun að fara ekki í gerð fríverslunarsamninga vegna þess að Doha-viðræðurnar væru í gangi þótt allir vissu að þær væru ekki að klárast.

Það sem ég gagnrýni ESB fyrir er ekki það sem þeir hafa gert heldur í rauninni það sem þeir hafa ekki gert. Ef Bandaríkin og Evrópusambandið mundu stilla saman strengi sína og breyta Alþjóðaviðskiptastofnuninni með einhverjum hætti til þess að stækka fríverslun í heiminum eða hefja nýja umferð sem á að skila einhverju gætu mjög fáir stoppað þá.

Saman mundu Bandaríkjamenn og Evrópusambandið geta aukið fríverslun í heiminum mjög mikið. Bandaríkjamenn geta gert ákveðið mikið einir og hafa nú þegar gert ýmislegt síðan þeir fóru sjálfir af stað. Helsta ástæðan og hugsunin að baki því að klára Kyrrahafssamkomulagið er sú að þá eru Bandaríkjamenn að setja pressu á ESB um að klára samkomulag við þá. Það er hugsunin að baki því eftir að þeir eru búnir að reyna hina leiðina.

Ég gagnrýni Evrópusambandið fyrir aðgerðaleysi. Og það er langt í að fríverslunarsamningar (Forseti hringir.) verði úrelt tæki, ég er sammála hv. þingmanni hvað það varðar.