145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norrænt samstarf 2015.

463. mál
[13:07]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér tókst ekki alveg að ljúka þessu með utanríkismálin. Mig langar til að heyra mat fráfarandi forseta Norðurlandaráðs á því hvort það skipti ekki sköpum að gera Norðurlandaráð virkara í umræðu dagsins í dag, að við þurfum ekki alltaf að aðskilja þessi mál, sem mér fannst mjög vont.

Það sem mig langaði að nota síðustu sekúndurnar til að ræða er það sem mér hefur fundist skipta öllu máli í vinnu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs síðan sú deild tók við árið 2013. Það er túlkaþjónustan, vegna þess að með henni, og það var innleitt af hálfu nýrrar forustu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, höfum við getað gert okkur mun meira gildandi í þessu samstarfi. Ég tel að Íslendingar og íslenskir skattgreiðendur fái miklu meira fyrir peningana sína núna en áður þar sem við getum (Forseti hringir.) talað núna okkar eigin þjóðtungu.