145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norrænt samstarf 2015.

463. mál
[13:09]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi tel ég að umræða um utanríkismál hafi skipt gríðarlega miklu máli og ég tel að það skipti Norðurlandaráð máli að halda áfram þeim díalóg. Nú horfum við upp á flóttamannavandann, við horfum upp á mismunandi aðgerðir innan Norðurlandanna og þetta þarf að ræða á samnorrænum vettvangi.

Svo vil ég taka undir með hv. þingmanni, ég held að það hafi verið frábært skref hjá Íslandsdeild Norðurlandaráðs að krefjast þess að Íslendingar töluðu sitt eigið tungumál í umræðum um einstök mál. Finnar tala sitt eigið tungumál, Danir, Norðmenn og Svíar, allir töluðu sitt eigið tungumál fyrir utan Íslendinga og það setti okkur í rauninni skör lægra þrátt fyrir að margir væru vel að sér í Norðurlandamálum og eru það. Það hefur ekkert með það að segja, en þegar þarf að rökræða stór og mikil mál þá skiptir öllu að það sé gert á (Forseti hringir.) eigin tungumáli. Ég er sammála hv. þingmanni, ég held að það hafi skipt gríðarlega miklu máli þegar upp var staðið.