145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norrænt samstarf 2015.

463. mál
[13:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil leggja aðeins orð í belg um þessa skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um framvindu norræna samstarfsins á síðasta ári. Fyrst vil ég taka upp umræðu um fjárhagslegan grundvöll þessa samstarfs. Frá því er að segja að undanfarin nokkur ár hefur verið uppi sparnaðarkrafa af hálfu eins og stundum fleiri ríkja. Framan af voru það Svíar sem gerðu kröfur um mikið aðhald og jafnvel að um beinan niðurskurð yrði að ræða og þegar þeir létu svo af því tóku Danir við og hafa verið í forustu þeirra sem hafa heimtað í raun og veru að umsvifin í hinu norræna samstarfi væru beinlínis dregin niður með sparnaðar- eða aðhaldskröfu. Þetta er búið að valda nokkrum núningi, svo vægt sé til orða tekið, undanfarin nokkur ár. Ég hef verið í þeim hópi eftir að ég kom aftur að þessu borði, og reyndar áður líka sem samstarfsráðherra um tíma í afleysingum, sem hefur andæft þeirri þróun.

Nú horfir sem betur fer til þess að á árinu 2017 verði í fyrsta skipti í nokkur ár ekki gerð krafa um beinan niðurskurð þannig að fjárveitingarnar haldist að raungildi milli ára, en það er ekki verið að tala um aukningu. Raunniðurskurðurinn hleypur á 8–10%. Norrænu fjárlögin fyrir árið í ár á verðlagi þessa árs eru um 924 milljónir danskra króna, en framreiknað til sama verðlags þá voru norrænu fjárlögin um 1.025 milljónir að meðaltali á nokkru árabili áður en þessi ólgusjór hófst. Það vantar því um 100 milljónir danskra króna inn í fjárlög norræna samstarfsins til þess að það hefði haldið raungildi sínu frá því sem var fyrir nokkrum árum. Þetta er ekki í takt við almenna þróun útgjalda til annars alþjóðlegs samstarfs og þetta er ekki í takt við langtímavöxt norrænu hagkerfanna. Þó að það hafi vissulega gengið upp og niður, bæði hér á landi og víðar, í Finnlandi t.d. núna, þá er það engu að síður svo að til lengri tíma litið og að jafnaði og meðaltali eru norrænu hagkerfin að vaxa um 1–2% og þeir sem ekki færa sannfærandi rök fyrir því að draga eigi úr vægi norrænnar samvinnu ættu náttúrlega þar með að berjast fyrir því að norrænu fjárlögin héldu sínum hlut. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, og vona að sem flestir af Íslands hálfu séu það með mér, að við ættum að hefja baráttu fyrir því að norrænu fjárlögin þróist í takt við útgjaldavöxt almennt í hagkerfunum, sem væri kannski eins og 1–1,5% vöxtur.

Þessar fjárhagsþrengingar hafa leitt til þess að öll ný verkefni og öll ný forgangsröðun sem menn hafa viljað taka upp hefur orðið að vera á kostnað einhvers annars sem hefur þar með þýtt niðurskurð í ýmsum af kjarnasviðum norræns samstarfs. Ég leyfi mér að halda að engar upplýsingar liggi fyrir um, nema frekar hið gagnstæða, að þetta sé endilega vilji íbúa Norðurlandanna. Satt best að segja held ég að tilfinning almennings á Norðurlöndunum sé sú að menn haldi að norræna samstarfið og norrænu fjárlögin séu miklu stærri en þau í raun og veru eru, því að þetta eru ekki mjög miklir fjármunir séð í samhengi við þjóðarframleiðslu Norðurlandanna og sjálfstjórnarsvæðanna í heild sem eru 10.–12. stærsta hagkerfi í heimi þegar það er lagt saman. Á þann mælikvarða séð er þessi tæpi milljarður danskra króna ekki stórar tölur. En vonandi horfir þarna betur.

Í öðru lagi hefur verið skilningur á því og vaxandi stuðningur við það að efla hið pólitíska samstarf eða hina pólitísku hlið á norræna samstarfinu og gera það meira lifandi og gera það að meiri umræðuvettvangi líka fyrir pólitísk mál, jafnvel þótt umdeild séu í einhverjum mæli. Sem sagt greinilega hreyfing í burtu frá þeirri átt að norræna samstarfið eigi fyrst og fremst að vera um það sem allir eru sammála um og þurfi ekki miklar rökræður og ekki mikil pólitísk skoðanaskipti.

Sú hugsun er núna víkjandi og í staðinn eru komnar óskir um að norræna samstarfið verði meira lifandi sem pólitískur samskiptavettvangur þar sem menn geti rökrætt og tekist eftir atvikum á um þess vegna umdeild mál og leitt þau til lykta með lýðræðislegum hætti. Til marks um þetta er auðvitað aukin umræða um utanríkismál, þar með talið jafnvel viðkvæm utanríkismál eins og Palestínumálið er gott dæmi um. Það var til lykta leitt á vissan hátt og í bili að minnsta kosti með mjög farsælli afgreiðslu á tillögu sem átti upphaf sitt í flokkahópi vinstri sósíalista og græningja um að hin Norðurlöndin fylgdu fordæmi Íslands og Svíþjóðar og viðurkenndu Palestínu sem frjálst og fullvalda ríki innan þeirra landamæra sem alþjóðlega hefur verið miðað við. Það tókst að lenda því máli með góðri málamiðlunartillögu þar sem í aðalatriðum stóðu saman sósíaldemókratar, miðjumenn og vinstri menn, tiltölulega breiður stuðningur og afgerandi niðurstaða Norðurlandaráðs við það þar sem að vísu er með svolítið mildari hætti vitnað til þessa fordæmis og engu að síður hvatt til þess að menn, þegar það þjóni friðarferlinu og hver og einn meti tímabært, viðurkenni sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

Af mikilvægustu áherslusviðum í samstarfinu mætti nefna vinnumarkaðsmálin sem hafa verið tekin fyrir og eru til sérstakrar umfjöllunar og skoðunar á vegum Norðurlandaráðs. Sérstakur málsvari eða rannsóknarstjóri hefur verið fenginn til þess verkefnis, gamalreyndur danskur stjórnmálamaður, að kortleggja þróun vinnumarkaðsmála á Norðurlöndum og helstu áskoranir sem menn standa þar frammi fyrir, þar á meðal í hvaða mæli norræna vinnumarkaðsmódelið, þríhliða samningar og mikilvægt hlutverk aðila vinnumarkaðarins sé undir þrýstingi frá Evrópuréttinum o.s.frv. Heilbrigðismálin á grundvelli Könberg-skýrslunnar hafa líka verið til umfjöllunar. Það er alveg samdóma álit manna að í það hafi Norðurlöndin mikið að sækja, að stórefla samstarf sitt á sviði heilbrigðismála og heilbrigðisþjónustu. Þar eru viss forgangsverkefni eins og að berjast gegn ónæmum bakteríum, greina sjaldgæfa sjúkdóma, eftir atvikum að sameina kraftana þegar kemur að allra sérhæfðustu tegundum læknismeðferða og tækjabúnaðar og þar fram eftir götunum. Svo eru það að sjálfsögðu landamærahindranirnar sem er náttúrlega hefðbundið eða hefur verið til mjög langs tíma eitt af stóru viðfangsefnum norrænnar samvinnu, þ.e. að gera það þægilegra og auðveldara fyrir fólk að ferðast milli ríkja Norðurlandanna, búa á víxl í mismunandi ríkjum á Norðurlöndum, stunda nám o.s.frv. Þetta er viðvarandi verkefni, bæði að útrýma hindrunum sem fyrir eru og takast á við nýjar sem eru að skjóta upp kollinum.

Það verður ekki komist hjá því að nefna þá undarlegu stöðu sem uppi er því að nú eru að skjóta upp kollinum sem afleiðing af flóttamannastraumnum nýjar og mjög alvarlegar landamærahindranir innan norrænu landanna þar sem er til dæmis landamæraeftirlitið á Eyrarsundsbrúnni eða milli Danmerkur og Svíþjóðar. Það er auðvitað hið pínlegasta mál og það pínlegt að verulegrar tregðu gætir til þess að taka það upp til opinnar og heiðarlegrar umræðu. Bæði Danir og Svíar eru býsna viðkvæmir þegar kemur að því. Engu að síður er nú orðin niðurstaða að þetta mál verður sérstaklega á dagskrá aukaþings sem haldið verður í Noregi nú í apríl og skárra væri það nú. Til hvers væri Norðurlandaráð og norræn samvinna ef ekki mætti að minnsta kosti taka til umræðu stöðuna sem þarna er uppi jafnvel þótt menn verði ekkert endilega sammála um mjög margt?

Að lokum af því að tíminn er búinn, virðulegi forseti, þá mundi ég segja fyrir mitt leyti og mitt mat á stöðu norræns samstarfs eftir að hafa fylgst með því meira og minna og samfellt í ein 30 ár er að það sé við alveg bærilega heilsu. Það eru alltaf áskoranir, en það eru færri raddir ef einhverjar núna sem raunverulega tala það mikið niður eða hafa einhverjar teljandi efasemdir um tilvist þess. Þannig met ég stöðuna. Ég held að við getum verið ágætlega sátt við það, við sem teljum okkur Norðurlandasinna. Í mínum huga er enginn vafi frekar en það hefur verið að Ísland á að beita sér fyrir því (Forseti hringir.) að norrænt samstarf sé öflugt og við eigum að líta á það sem kjarnann í utanríkisstefnu okkar að efla norrænt og vestnorrænt samstarf.