145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[14:54]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Hér kom á sínum tíma fyrrverandi heimsmeistari í skák, Garrí Kasparov. Hann kom til fundar við utanríkismálanefnd. Það var áður en hv. þingmaður tók þar sæti. Hann lýsti því nákvæmlega með hvaða hætti þyrfti að fara gagnvart Rússum ef það ætti að skipta einhverju máli. Niðurstaðan í máli hans og það sem hann lagði mesta áherslu á og hefur reyndar reifað í fjölmörgum skörpum greinum var einmitt að það þyrfti að fara mun dýpra en menn voru að ræða og tóku ákvarðanir um á fyrstu stigum þessa máls.

Ég er svo í grundvallaratriðum ósammála því sem mér fannst hv. þingmaður segja í fyrri hluta síns andsvars, en draga til baka efnislega í seinni hlutanum, þ.e. hún væri á móti því að þvingunum á sviði viðskipta og verslunar væri beitt til þess að ná fram pólitískum markmiðum. (Gripið fram í.) Ég er þeirrar skoðunar að það sé fullkomlega réttlætanlegt og ég bendi á hið klassíska dæmi sem hún hefur auðvitað heyrt þúsund sinnum. Það sem braut á bak aftur aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku á sínum tíma voru viðskipta- og fjárfestingarþvinganir. Ég held að það liggi algerlega ljóst fyrir.

Jú, það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það lá við að það væri daglegt brauð í utanríkisráðuneytinu á tímabili á síðasta kjörtímabili og er hugsanlega enn þá að skrifað væri undir reglugerðir sem fólu í sér einhvers konar refsiaðgerðir gagnvart þeim ríkjum og mun fleiri sem hv. þingmaður nefndi áðan.

Ég er þeirrar skoðunar að ef menn skoða t.d. hvernig Norðmenn brugðust strax við og hins vegar við, þá megi sjá skýran mun á því hvernig þeir greindu stöðuna, drógu ályktanir og brugðust við gagnvart því fyrir hönd sinna útflutningsgreina. Þeir voru búnir að vinna sér sína markaði í Evrópu og undirbúa það löngu áður (Forseti hringir.) en það rann upp fyrir mönnum í íslenskum stjórnmálum að það kynni að vera gripið til þess sem hv. þingmaður hefur skilgreint sem hefndarráðstafanir. En það liggur við að segja megi að hver heilvita maður hefði átt að geta gert sér grein fyrir þeim möguleika.