145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[15:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki að gefa upp einhverja sérstaka afstöðu til þess sem gerðist með Krím. Ég var ekki að segja að það væri í lagi, ég var ekki að lýsa yfir neinum stuðningi við það sem Rússar gerðu þar. Ég vitnaði til tiltekinna þátta, sögulegra og pólitískra þátta, sem eftir sem áður eru þarna til staðar um hvaða ríkjum þetta svæði hefur tilheyrt sögulega séð til lengri tíma litið. Það er eftir að sjálfstæð ríki fóru að myndast og við fórum að horfa á einhver „landamæri“, hefur náttúrlega Krímskaginn verið hluti af Rússlandi miklu lengur en Úkraína. Í öðru lagi er sannanlega meiri hluti íbúanna rússneskur eða rússneskumælandi og ég held að ekki verði efast um að afstaða þeirra hafi legið þangað.

Á þar með bara að viðurkenna að svona eigi þetta að vera og menn geti farið inn í Donbass eða einhver önnur slík svæði og látið kjósa þar um það hvað menn vilji gera og líta á eins og landamærin skipti ekki máli? Auðvitað skipta þau máli.

En ég spurði spurningar sem ég fékk reyndar ekki svar við: Hver er munurinn á Krím og Kósóvó? Hvað með sjálfsákvörðunarrétt þjóða eða þjóðarbrota eða menningareininga? Ef menn tala tungumál, ef menn uppfylla þær meginskilgreiningar þjóðaréttarins sem yfirleitt eru gerðar til þess að menn hafi sjálfsákvörðunarrétt, þá er það að hafa menningarlega samkennd, tala sama tungumál, það er að búa á afmörkuðu landsvæði þar sem þeir eru ráðandi hópur og það er að geta síðan þá efnahagslega og pólitískt og að öðru leyti bjargað sér sem slíkir.

Ég styð sjálfsákvörðunarrétt þjóðarbrota og þeirra sem fullnægja þessum skilyrðum. Ég styð sjálfsákvörðunarrétt Baska, Katalóníubúa, Skota og mér finnst það vera réttur fólks á þessum svæðum, af því að það tilheyrir saman menningarlega, býr á afmörkuðu landsvæði og hefur alla burði til þess að bjarga sér sjálft, ef það svo vill, að verða sjálfstætt.

Það hefur vissulega áhrif á mig þegar ég horfi á þessa (Forseti hringir.) stöðu en ég var ekki að réttlæta eða fullyrða (Forseti hringir.) að það sem gerðist á Krím væri í lagi og að það gæti ekki verið lögbrot.