145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[15:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er mikilvægt og ekki síst fyrir minni ríki að borin sé virðing fyrir alþjóðalögum, eftir þeim farið og leyst úr réttarágreiningi á málefnalegan hátt en ekki með valdi o.s.frv. En það er þá líka eins gott að allir séu jafnir fyrir þeim lögum og þau séu túlkuð ekki bara eftir behag. Ætli stórveldin verði nú ekki stundum að líta í eigin barm? Og hvar er heilagleikinn þegar óumdeilt er, til dæmis í tilviki Vestur-Sahara, að það fólk á rétt á sjálfstæði og hefur samþykkt það, en menn setja kíkinn fyrir blinda augað áratugum saman? (Gripið fram í.)— Já, já. Ég held að menn verði líka að horfast í augu við að auðvitað eru oft árekstrar á milli mismunandi prinsippa milli réttarins. Sjálfsákvörðunarrétturinn er mjög mikilvægur og veigamikill í alþjóðarétti, í þjóðaréttinum. Hann rekst vissulega stundum á við hagsmuni stórríkjanna sem óttast að þau gliðni eitthvað sundur nái menn fram þessum rétti sínum. Þess vegna er allt gert sem hægt er til þess að þvælast fyrir því eins og Madríd-stjórnin gerir núna gagnvart Katalóníubúum o.s.frv.

Að lokum skulum við ekki gleyma því þegar við erum að tala um hin svokölluðu heilögu landamæri hvernig þau urðu til, mörg hver. Ætli þar sé nú ekki líka maðkur í mysunni þegar nýlenduríkin og stórveldin tóku landakortið og teiknuðu það upp, drógu pennastrik og notuðu reglustiku til að búa til ríki hist og her, sem er ein ástæða óstöðugleikans í Miðausturlöndum, í Asíu og víðar? Ég ætla ekki að gerast uppáskriftarmaður þeirrar stórveldapólitíkur sem víða hefur skilið eftir sig sviðna jörð úti um allt.

Þá er afstaða mín einfaldlega sú að það leikur talsverður vafi á því hvernig líta ber á það í hinum þjóðréttarlega skilningi. Það eru sjónarmið bæði með og á móti, við getum sagt að það sé þar af leiðandi að vissu leyti grátt svæði. Ég tel mig ekki í afstöðu til þess (Forseti hringir.) að fullyrða hvorki til né frá að þarna hafi átt sér stað skýlaust lögbrot. Ég (Forseti hringir.) hallast að því að það sé á verulega gráu svæði.