145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norðurskautsmál 2015.

475. mál
[15:29]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum nú hlýtt á skýrslu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál og ég þakka fyrir það. Það er ánægjuefni að lesa í þeirri skýrslu og heyra hér í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar að íslenska þingmannanefndin hefur enn sem fyrr lagt áherslu á umhverfismál, ekki síst loftslagsbreytingarnar á norðurslóðum. Það er ánægjulegt að sjá að nefndin heldur til haga skýrslu um mannlífsþróun á norðurslóðum þar sem áhersla er lögð á aðlögun norðurslóðasamfélaga í ljósi breyttra aðstæðna og sjónum beint að mikilvægi þess að skilja þarfir íbúa á norðurslóðum á sviði menntunar, heilbrigðis og efnahagsmála.

Ég mundi vilja bæta við í þá upptalningu menningu og segi það í ljósi ummæla hv. þingmanns um þörfina á því að tæknivæða frumbyggja á norðurslóðum til þess að efla möguleika þeirra á alþjóðavettvangi. Ég held að ekki sé síður ástæða til þess að virða og vernda atvinnumenningu í þessum samfélögum. Í samfélögum eins og Grænlandi hafa menn t.d. val um tækniframfarir en kjósa líka að efla eigin sérstöðu og atvinnuhætti og gera það á forsendum gæða og geta þá verðlagt sínar afurðir á grundvelli þeirrar sérstöðu.

Það er líka ástæða til að taka undir yfirlýsingu elleftu ráðstefnu þingmannanefndarinnar frá 2014 þar sem kallað er eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa norðurskautsins. Í þeirri yfirlýsingu er líka kallað eftir stuðningi við uppbyggingu samfélagsinnviða á norðurslóðum eins og flugvalla, hafna og þjóðvega sem styðja við þróun atvinnulífs, ekki síst ferðaþjónustu og efnahagslíf heimamanna, auk annarrar umhverfisvænnar og sjálfbærrar starfsemi. Um leið er auðvitað brýnt að standa vörð um rétt íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt, efla Norðurskautsráðið, umhverfismál og öryggis- og björgunarmál á hafi. Yfir þetta fór hv. þingmaður ágætlega.

Þetta eru allt stefnumál sem hafa verið baráttumál um langt árabil og verða enn um sinn. Staðreyndin er auðvitað sú að breytingarnar á norðurskautinu eru mun örari en nokkurn óraði fyrir að gæti orðið fyrir einungis fáum árum. Spáin sem sett var fram árið 2004 í skýrslunni Arctic Climate Impact Assessment, sem varð grundvöllur allrar umræðu um málefni norðurslóða og loftslagsbreytingarnar þar, sýndi fram á að hitastig á norðurslóðum hækkaði að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Nú sjáum við breytingar sem eru farnar fram úr þeirri spá, breytingarnar eru það örar. Ísbráðnun hefur leitt til aukinna umsvifa á svæðinu sem aftur hefur áhrif á umhverfið og ýtir undir frekari breytingar.

Á norðurslóðum eru líka auðlindir undir hafsbotni og jörðu sem stórþjóðir hafa augastað á. Í hafinu eru lífstofnar, fengsæl fiskimið, hvalur og selur og fleira sem strandríkin byggja afkomu sína á og allt þetta hefur gert mönnum betur ljóst hversu mikið er í húfi fyrir vistkerfi og efnahag norðurslóðaríkja að þar sé stigið varlega til jarðar og af ígrundun og yfirvegun.

Þetta hefur líka leitt til þess að æ fleiri ríki, stofnanir og samtök, ásælast hlutdeild í gæðum og möguleikum norðurslóða með auðlindanýtingu ekki síst fyrir augum. Eins og ég gerði að umtalsefni í ræðu minni fyrr í dag um Norðurlandasamstarf þá eru valdastjórnmálin farin að yfirskyggja samvinnu ríkja eftir því sem stórveldin gera sig meira gildandi í norðurslóðamálefnum. Stórþjóðir hafa skilgreint norðurskautið sem hernaðarlega mikilvægt og hernaðarleg viðvera hefur færst þar í aukana. Að sama skapi hafa fleiri þjóðir séð ástæðu til þess að árétta fullveldi sitt og hagsmuni tengda nýtingu. Við svo búið verða Norðurlöndin að taka sér stöðu og gæta hagsmuna sinna og samningsstöðu gagnvart umheiminum.

Það er því eiginlega mikilvægara en nokkru sinni fyrr að efla og bæta samstarf Norðurlandanna í umhverfis- og öryggismálum á norðurslóðum og auka og efla norðurslóðasamstarfið sem slíkt. Í þessu sambandi er ekki síst mikilvægt að velta fyrir sér hinu svokallaða fimm ríkja samstarfi um norðurskautsmálefnin sem er eitt dæmi um það hvernig valdastjórnmál eru á vissan hátt að verða ógn við ríkjasamvinnu í málefnum norðurslóða, en þar hafa Kanada, Bandaríkin, Rússland, Danmörk og Noregur myndað með sér samráðsvettvang, en undanskilið Íslendinga, Svía, Finna og frumbyggjasamtökin.

Til hliðar við þennan vettvang starfar svo Norðurskautsráðið. Í því eru öll norðurslóðaríkin átta og þar eiga frumbyggjasamtök norðurskautsins líka sína fulltrúa og ýmsir fleiri. Það er mikilvægt og hefur verið að mati okkar Íslendinga um hríð að styrkja samstarfið í Norðurskautsráðinu. Við lítum á það sem vettvanginn þar sem samráð þjóðanna eigi að eiga sér stað. Það er augljóst að strandríkin og ekki síst Íslendingar og frumbyggjaþjóðirnar eiga verulega mikið undir þessu og hagsmunir okkar Íslendinga eru auðvitað nátengdir bæði samgöngum til og frá landinu og auðlindanýtingu á borð við fiskveiðar. Það gefur augaleið að Ísland sem er 17. stærsta fiskveiðiþjóð heims og á kröfu til land- og hafsvæða norðan heimskautsbaugs hlýtur að vera uggandi yfir þessu fimm ríkja samstarfi þar sem við eigum enga aðkomu. Þó að Robert Papp, sendifulltrúi Bandaríkjanna um málefni norðurslóða, fullyrði að deilur Bandaríkjanna og Rússa vegna Úkraínu hafi ekki áhrif á samstarfið innan Norðurskautsráðsins, þá fer ekki hjá því að spenna og tortryggni í samskiptum landa hefur aukist.

En hvað um það, það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að valdastjórnmálum sé vikið til hliðar í þessum málaflokki svo geigvænlegar sem umhverfisbreytingarnar eru sem eru að eiga sér stað. Það er enn mikilvægara að efla milliríkjasamstarf um rannsóknir og vöktun á svæðinu þannig að ákvarðanir framtíðar byggist á vísindalegri þekkingu. Ég sakna þess raunar í skýrslunni sjálfri hversu lítið er rætt um þann þátt málsins, en í kaflanum sem fjallar um áherslur Íslendinga í málefnum norðurslóða á bls. 6 er vísað til stefnumótunar sem átti sér stað þegar árið 2011. Sú stefnumótun miðar að því að tryggja hagsmuni Íslands með tilliti til áhrifa loftslagsbreytinga, umhverfis- og auðlindamála, siglinga- og samskiptaþróunar, auk þess að efla tengsl og samstarf við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni svæðisins. Stefnan felur það meðal annars í sér að efla Norðurskautsráðið sem mikilvægasta samráðsvettvanginn um málefni norðurslóða, tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan svæðisins og byggja á hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna við úrlausn álitaefna á svæðinu. Þessi stefnumótun var mjög þörf þegar hún var sett á sínum tíma og við hana þurfum við auðvitað að standa en auk þess verðum við að leggja æ ríkari áherslu á rannsóknarþáttinn og vísindasamstarfið. Við eigum mikilla hagsmuna að gæta af því að hafa raunveruleg áhrif á þróun mála á norðurslóðum í framtíðinni, en við eigum ekki síður mikið undir því hvernig ákvarðanatakan fer fram og á hverju hún byggir, þ.e. hvort hún byggir á harðri hagsmunagæslu og valdapólitík eða hvort hún byggir á þekkingarlegum grunni.

Virðulegi forseti. Ég tel að við Íslendingar eigum að hafa forgöngu um að efla rannsóknir, vöktun og vísindasamstarf á norðurslóðum. Nú búa um 4 milljónir manna á því svæði sem hefur verið skilgreint sem norðurslóðir. Það er mjög mikilvægt að greina þarfir þessara samfélaga, menntunarþarfir, heilbrigðismál, efnahagslegar þarfir o.s.frv., en ekki síður að viðhafa umhverfisvöktun og rannsóknir á vistkerfinu þannig að þær ákvarðanir sem teknar verði í framtíðinni um málefni þessa svæðis byggi á raunverulegri þekkingu og vísindasamstarfi.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að við eigum að hafa forgöngu (Forseti hringir.) um þetta og vera leiðandi í málefnum norðurslóða á grundvelli fagmennsku, þekkingar og ábyrgrar umhverfisstefnu, því að okkar afkoma og framtíð getur oltið á því.