145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

verjendur í sakamálum.

[15:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, ritaði bréf til Lögmannafélags Íslands 17. nóvember 2015. Félagið sendi þar afrit til ýmissa aðila, þar á meðal dómstólaráðs, innanríkisráðuneytis og annarra aðila, þar sem kvartað er undan eða bent á kvartanir sem margir félagsmenn Afstöðu hafa lagt fram síðastliðinn rúman áratug vegna slælegra vinnubragða lögmanna til handa föngum. Þeir segja frá því að erfitt sé að ná í verjendur, þeir komi illa undirbúnir í réttarsal og ýmislegt annað þess efnis sem nánar greinir um í bréfinu sjálfu og í frétt sem birtist um málið í kjölfarið. Þar er óskað eftir því að úthlutun lögmanna handa verjendum sé skoðuð sérstaklega þar sem upplifun fanga sé sú, og reyndar fullyrt, að útvaldir lögmenn fái meiri hluta allra sakamála vegna þess að lögreglan hafi sjálf samband við þessa lögmenn sem hún velji til verksins. Ekki er notaður svokallaður bakvaktalisti Lögmannafélags Íslands og þá er útlendingum ekki sagt að þeir geti valið lögmenn eða fengið annan lögmann, heldur sé þeim einnig úthlutað þessum lögmönnum. Í bréfinu má greina mikla gremju yfir þessu öllu saman og er kallað eftir því að málaflokkurinn verði skoðaður.

Því spyr ég hæstv. innanríkisráðherra: Hefur átt sér stað athugun á fyrirkomulaginu um val verjenda til handa sakborningum og föngum? Samræmist sú skoðun hagsmunum sakborninga og uppfyllir hún væntingar ráðherra um réttaröryggi fanga?