145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

verjendur í sakamálum.

[15:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður sé líka að leita eftir afstöðu til þess hvernig opinberir verjendur veljast til þegar menn eru teknir til yfirheyrslu hjá lögreglu og slíka hluti ef ég skildi fyrirspurnina rétt.

Við höfum ekki hlutast til um slíka hluti í innanríkisráðuneytinu. Ég veit af bréfinu sem hv. þingmaður vísar til og er til meðhöndlunar í ráðuneytinu. Ég er ekki með neinar tölur um þetta á takteinum, hvernig þessu er háttað eða hvernig val á lögmönnum fer fram, en tel skynsamlegt, eins og alltaf er, að fá betur fram hvernig þessum reglum er háttað. Ef það er eitthvað þarna sem gæti farið betur þá er sjálfsagt að skoða það. En ég hef ekki að öðru leyti orðið vör við gremju eða athugasemdir annars staðar frá um þessa skipan mála. Ég ætla ekkert að úttala mig um það að um það geti ekki verið að ræða. Á þessu stigi get ég nú kannski ekki gengið mikið lengra til að svara hv. þingmanni en þetta: Við erum með þetta bréf til meðhöndlunar í ráðuneytinu og munum svara því.