145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

styrkur til kvikmyndar um flóttamenn.

[15:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem mér finnast vægast sagt undarlegar fjárveitingar til styrktar heimildarkvikmyndagerð í landinu, sem fréttir hafa verið um um helgina. Það eru annars vegar 3 milljónir sem ríkisstjórnin veitti öll saman, skilst mér, og síðan 3 milljónir sem utanríkisráðherra veitti sérstaklega til gerðar á heimildarmynd um flóttamenn. Það náttúrlega verðugt verkefni að gera heimildarmynd um flóttamenn en það er ekki það sem þetta mál snýst um í mínum huga heldur jafnræði fólks til að sækja sér fé úr ríkissjóði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi af hvaða fjárlagaliðum þessir peningar koma. Veit hann af hvaða fjárlagalið styrkurinn frá ríkisstjórninni kemur? Hann hlýtur að vita af nákvæmlega hvaða fjárlagalið styrkur utanríkisráðuneytisins er. Það stendur í fréttum um málið að hann hafi haft samráð við þróunarsamvinnuskrifstofu í ráðuneytinu um þetta. Ber að skilja það sem svo að styrkurinn komi af fjárlagalið þróunarsamvinnuskrifstofunnar en ekki af ráðstöfunarfé ráðherra? Mér er þetta alveg hulin ráðgáta og vildi gjarnan að hæstv. ráðherra útskýrði þetta aðeins betur fyrir mér.