145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

rannsóknir á kynferðisbrotum gegn fötluðu fólki.

337. mál
[16:04]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Mig langaði bara í þessu sambandi að minna á mikilvægi rétts fatlaðra til sjálfstæðs lífs, m.a. með notendastýrðri persónulegri aðstoð. Stofnanir geta verið viðsjárverðar eða það er áskorun að hafa nógu mikið eftirlit með stofnunum eða heimilum. Auðvitað á það alltaf að vera verkefnið. Einn af kostunum við NPA sem kannski er dýrari kostur þegar allt er talið saman, ég veit það ekki, er sá að þar hefur fatlaður einstaklingur meiri yfirráð yfir eigin lífi og velur sjálfur hverjir aðstoða viðkomandi. Í ljósi þess hversu alvarleg þessi brot eru sem við höfum verið að horfa upp á finnst mér það algjörlega þess virði þótt það kosti meira. Mér finnst þreytandi hvað umræðan um NPA fer alltaf (Forseti hringir.) út í kostnað og aura því að kostnaðurinn við hitt er slíkur að við eigum ekki að láta (Forseti hringir.) það líðast.