145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

meðferð lögreglu á skotvopnum.

392. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Skotvopnaeign lögreglu hefur verið talsvert til umfjöllunar á Alþingi undanfarin missiri. Hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurn minni í fyrra um skotvopnaeign lögreglunnar þar sem kom fram að lögreglan ætti 590 skotvopn og keypt hefðu verið 145 skotvopn frá árinu 2004, og tengdist það fyrst og fremst því þegar rætt var um óskilgreinda gjöf Norðmanna til lögreglu eða Landhelgisgæslu.

Þessi umræða hefur hins vegar verið uppi síðan, þ.e. hvernig við viljum sjá lögregluna þróast á Íslandi. Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að hún telji að sú meginregla eigi að gilda að lögreglan sé óvopnuð við dagleg störf. Við höfum hins vegar greint, sem fylgjumst með þessari umræðu, að það virðast talsvert skiptar skoðanir um hversu mikið lögreglan eigi að vera vopnum búin og hvaða reglur eigi gilda um það.

Ég hef lagt mjög mikla áherslu á að umræðan sé gagnsæ, að öllum sé ljóst hvaða reglur gildi um meðferð skotvopna þegar kemur að lögreglunni og sé ákveðið að vopnbúa lögregluna byggi það á gögnum og greiningu á að raunveruleg þörf sé fyrir slík vopn.

Það hefur verið, held ég, stolt margra Íslendinga að lögreglan sé almennt óvopnuð í daglegum störfum, að vopn séu ekki sýnileg. Mér finnst það sjálfri alltaf óhugnanlegt þegar maður sér þungvopnaða lögreglumenn úti á götum erlendis. Þetta hefur verið ákveðið stolt okkar enda spyr maður sig líka gjarnan hvaða gagni vopnin eigi að þjóna þegar um er að ræða almenn lögreglustörf. Við höfum sem betur fer búið við það hér á landi að vera glæpafátt land þótt sögurnar um glæpina séu margar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hverjar aðstæður þurfi að vera til að skilyrði séu uppfyllt um að lögreglu sé heimilt að grípa til skotvopna þegar búið er að taka ákvörðun um að þessi vopn verði tiltæki í lögreglubifreiðum. Þetta er umræða sem fór hér fram fyrr í vetur. Þetta er fyrirspurn frá því í nóvember um að vopn yrðu tiltæk í lögreglubifreiðum.

En ég vil spyrja hvaða reglur gildi um hvenær heimilt verði að grípa til þeirra, hver meti þá aðstæður og heimili eða hafni notkun skotvopna. Þarf að hafa samband um notkun skotvopna eða eru skýrar reglur um hvaða aðstæður það eru og hver þarf þá að samþykkja það?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti upplýst okkur um hversu mörg tilfelli hafi komið upp í störfum lögreglu undanfarin tíu ár sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna og hvers konar tilfelli það eru. Ég spyr líka hvernig eftirliti verði háttað með skotvopnanotkun lögreglu og þeim atvikum sem verða á vettvangi þar sem skotvopnum er beitt.