145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

meðferð lögreglu á skotvopnum.

392. mál
[16:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir rétt að árétta við þessa ágætu fyrirspurn og ágætu umræðu að þegar kemur að því að auka völd lögreglunnar, hvort sem það er í formi valdbeitingarheimilda eða vopnaburðar eða hvað eina, verðum við að hafa það í huga að við þurfum í okkar samfélagi þótt lítið sé, kannski sérstaklega vegna þess hversu lítið það er, aðhald og mótvægi þegar kemur að stofnunum sem fara með vald.

Þess vegna þykir mér mikilvægt að það sé rætt og þakka fyrir þá umræðu sem á sér stað hér. En minni enn og aftur á að brýn þörf er á að efla eftirlit með lögreglu. Mér finnst að öll áhersla í þeim málum ætti að vera sú að koma þeim málaflokki í lag áður en við íhugum einhverjar frekari heimildir ýmist til vopnaburðar eða hvað eina.

Að því sögðu þakka ég hæstv. ráðherra fyrir svörin og enn og aftur fyrir að opna þessar valdbeitingarreglur sem voru á sínum tíma leynilegar því að það hefur gert umræðuna mun auðveldari en ella.