145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

skatteftirlit og skattrannsóknir.

389. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hvað ætlar fjármálaráðherra að gera til að minnka skattsvik á Íslandi? Þeirrar spurningar er víða spurt eftir að formaður fjárlaganefndar hefur upplýst að umfang skattsvika á Íslandi geti verið um 80 milljarðar kr. Ég hef því beint nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi: Telur hann að það að verja auknum fjármunum í skatteftirlit og skattrannsóknir muni skila sér í bættri skattheimtu og minni skattsvikum?

Í öðru lagi. Hefur hann fyrir því rannsóknir, eða þau embætti sem um þessi mál fjalla, sem sýna að aukið fjármagn í skatteftirlit og skattrannsóknir skili miklu meira fé í ríkissjóð en varið er í rannsóknirnar? Ég spyr einfaldlega: Borgar sig að setja meiri pening í að herða að skattsvikurum?

Í þriðja lagi. Hvað telur ráðherrann að hægt sé að ná miklu af þessum 80 milljörðum í ríkissjóð ef menn kappkosta að nýta allar leiðir sem til þess eru færar?

Í fjórða lagi og það er kannski mikilvægasta spurningin: Hvað ætlar fjármálaráðherra að gera til að auka og efla eftirlit og rannsóknir á skattsvikum en líka til að koma í veg fyrir þau? Við getum auðvitað með margvíslegum breytingum, bæði á reglugerðum og lögum, lokað ýmsum smugum og leiðum fyrir menn til að svíkja undan skatti og ná einhverjum hluta að minnsta kosti af þessum gríðarlegu fjármunum í ríkissjóð.