145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

skatteftirlit og skattrannsóknir.

389. mál
[16:34]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta vera eilífðarumræðuefni. Ég átti sérstakar umræður við hæstv. fjármálaráðherra um skattsvik veturinn 2013/2014. Okkur virðist einnig vera fyrirmunað að koma í veg fyrir kennitöluflakk, það er líka eitthvað sem við ræðum aftur og aftur án þess að nokkuð gerist; ég veit að það er einhverra hluta vegna ekki á forræði hæstv. fjármálaráðherra.

Mér finnst vanta að stjórnvöld komi fram með miklu skýrari stefnu: Skattsvik eru ólíðandi. Við ætlum að gera allt sem við getum til að uppræta þau. Allt.

Ég bjó í Danmörku í mörg ár. Þar var allt önnur stemning gagnvart skattsvikum. Menn lögðu mikið á sig og enginn vildi lenda í skattinum í Danmörku. Mér finnst þetta vanta hjá íslenskum stjórnvöldum og ekki bara núverandi heldur í gegnum tíðina. Miklu skýrari stefnu, meira afgerandi og að menn þori að tala skýrt og segja: Við líðum þetta ekki.

Hvað eru menn til dæmis að prenta (Forseti hringir.) 10.000 kr. seðil? Það er eitt dæmið um ruglið. Af hverju beinum við viðskiptunum ekki meira yfir í rafræn viðskipti? Ég vil sjá miklu skýrari stefnu frá hæstv. ráðherra.