145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

starfshópur um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála.

426. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mig langar að fá að nýta þetta tækifæri hér til að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um störf starfshóps um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála.

Það kom fram í desember 2014 að hæstv. ráðherra hefði skipað starfshóp um framtíðarskipan þessara mála. Ég hef reynt að fylgjast með fregnum af hópnum og einhverjar fregnir hafa borist af því að hann sé að störfum. En hann hefur hins vegar ekki lokið störfum svo að ég hafi tekið eftir.

Nú hafa fjárlög fyrir árið 2016 verið samþykkt og þar voru meðal annars tillögur fluttar af hv. þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna um breytingar á Fæðingarorlofssjóði til aukningar á sjóðnum. Þær voru ekki samþykktar og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sjái fyrir sér að gerðar verði breytingar á skipan fæðingarorlofsmála á yfirstandandi kjörtímabili og í hverju þær muni felast, hvort við megum eiga von á niðurstöðum þessa hóps á næstunni og hvort hæstv. ráðherra geti upplýst okkur um það ef einhverjar breytingar eru fyrirhugaðar hvort þær lúti þá að lengingu orlofsins eða hækkun þaksins eða öðrum breytingum á fyrirkomulaginu.

Ástæða þess að ég spyr er sú að það liggur fyrir að Fæðingarorlofssjóður var — eins og raunar allt annað í opinberum rekstri — skorinn niður þegar ríkið fór nánast á hausinn haustið 2008. Við vitum að þessi sjóður er gríðarlega mikilvægur fyrir framtíð landsins í orðsins fyllstu merkingu, það skiptir verulegu máli að vel sé að honum búið. Það er mín skoðun að það hefði átt að vera eitt af forgangsverkefnunum að hefja uppbyggingu sjóðsins. Ég hefði fremur valið að fara í uppbyggingu á Fæðingarorlofssjóði en þær skattalækkanir sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í. Þar er áherslumunur. Ég þykist þó vita að hæstv. ráðherra sé mér sammála um mikilvægi þess að þessum sjóði verði forgangsraðað. Það er hins vegar spurning hvernig það verði gert, hvort hæstv. ráðherra hafi myndað sér sýn á því að forgangurinn sé að lengja orlofið eða að hækka þakið, eða bæði. Það væri áhugavert að fá að vita hér.

Ástæða þess að ég spyr er að ég tel mjög brýna þörf á að við förum að horfa til uppbyggingar sjóðsins. Okkur er sagt að horfur í efnahagsmálum séu með þeim hætti að við eigum að leyfa okkur að horfa til þess að byggja sjóðinn upp. Hér hefur verið samþykkt þingsályktunartillaga um að ríki og sveitarfélög eigi að starfa saman að því að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla. Mikilvægur hluti af því er að lengja orlofið. Þá værum við líka að feta í fótspor nágrannaþjóða okkar sem flestar eru komnar upp í að minnsta kosti ár. Það er níu mánuðir hér.

Það væri gott að sjá breytingar á þessum sjóði á þessu kjörtímabili (Forseti hringir.) og mikilvægt að starfshópurinn skili af sér á næstunni þannig að tími gefist til að ræða tillögur hans.