145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

störf nefndar um málefni hinsegin fólks.

427. mál
[16:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Á Alþingi var samþykkt tillaga 15. janúar 2014 um að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra ætti að skipa nefnd með þátttöku hagsmunaaðila, sérfræðinga og stjórnmálaflokka er gera skyldi tillögu að samþættri aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu. Nefndin átti að skila tillögum til ráðherrans samkvæmt samþykkt þingsins fyrir 1. október 2014. Þessi tillaga hafði þá áður verið lögð fram, á 142. löggjafarþingi, en var samþykkt í takt við þann samhljóm sem oft hefur mátt finna á Alþingi um málefni hinsegin fólks. Hér hefur iðulega náðst samstaða meðal ólíkra stjórnmálaafla um réttarbætur í þágu þessara hópa. En það þýðir ekki að ekki þurfi að gera betur.

Ástæða þess að ég lagði þessa tillögu fram á sínum tíma var að vorið 2013 var kynnt svokallað regnbogakort, ILGA-Europe, sem er mælikvarði á lagalega stöðu hinsegin fólks í Evrópulöndunum. Þar var Ísland í tíunda sæti af þeim 49 ríkjum sem athuguð voru. Það kom kannski mörgum á óvart sem töldu okkur vera ofar á þessu litrófi. Meðal þess sem kannað var þegar kortið var útbúið var virðing fyrir funda-, félaga- og tjáningarfrelsi, löggjöf og stefna gegn mismunun, hælisveitingar, lagaleg staðfesting á kyni, vernd gegn hatursorðræðu og fjölskylduviðurkenning.

Þetta var líka áherslumál á hátíðarfundi samtakanna '78 þetta sumar, 2013, að ástæða væri til að fylgja eftir hinni þörfu löggjöf um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda. Það þótti mikilvægt að greina reynsluna af löggjöfinni. Önnur löggjöf var raunar nefnd sem þyrfti að skoða sérstaklega eins og lög um mannanöfn og þjóðskrá, það þyrfti að gera betur í fræðslu um málefni hinsegin fólks, varnir gegn hatursorðræðu væru ófullkomnar í íslenskri löggjöf og enn fremur þyrfti að lagfæra ýmsa hluti í kerfinu hjá okkur, í stjórnsýslunni, eyðublöð, skráningarform hins opinbera gagnvart þeirri staðreynd að ekki væru allir landsmenn gagnkynhneigðir.

Eins og kom fram var þessi tillaga samþykkt. Nú er liðið eitt ár og fjórir mánuðir síðan nefndinni var gert að skila samkvæmt tillögunni. Mig langar hreinlega, án þess að tefja lengur í pontu, að spyrja ráðherra hvað hafi tafið störf nefndarinnar, hvort hún geti upplýst okkur um það af hverju nefndin hafi ekki lokið störfum meira en ári eftir að hún átti að skila og hvenær við eigum þá von á niðurstöðum nefndarinnar.