145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

störf nefndar um málefni hinsegin fólks.

427. mál
[16:57]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um störf nefndar um málefni hinsegin fólks. Nefnd um málefni hinsegin fólks er virk en hún er skipuð hagsmunaaðilum, sérfræðingum og fulltrúum stjórnmálaflokka. Nefndin hittist alla jafna á tveggja vikna fresti en síðasti fundur hennar var haldinn 20. nóvember 2015.

Hv. þingmaður spyr hverju megi sæta að verkið hafi tafist. Um er að ræða að mati ráðuneytisins viðamikið verkefni þar sem huga þarf að mörgum atriðum og má þar nefna fræðslu, lagabreytingar er varða transfólk sem og bætta stöðu intersex-einstaklinga sem fyrst nýlega var farið að ræða opinberlega í samfélaginu. Líkt og kom fram styðst nefndin við ábendingar frá alþjóðlegum samtökum hinsegin fólks, ILGA, en samtökin gefa árlega út skýrslu um stöðu hinsegin fólks í Evrópu. Mér heyrðist að ég væri kannski með eilítið aðrar tölur en hv. þingmaður en samkvæmt ILGA er Ísland núna í 12. sæti er varðar stöðu hinsegin fólks en var hins vegar í níunda sæti árið 2014. Ástæða þess að Ísland fellur niður á listanum má rekja til þess að við þurfum að bæta stöðu intersex-einstaklinga og transfólks og vinna nefndarinnar hefur tekið mið af því. Henni var ætlað að skila tillögum til mín í byrjun október 2014 en það tafðist hins vegar að skipa í nefndina. Eins og ég nefndi er verkið mjög viðamikið sem skýrir þær tafir sem hafa orðið á starfi hennar.

Ég vonast hins vegar til þess, og hef aflað mér upplýsinga um það, að nefndin skili tillögum að samþættri aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu til mín á vormánuðum.