145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Allnokkur umræða hefur spunnist um samning ríkisins við sjúkrahótel nokkurt á undanförnum vikum. Sú umræða beinir sjónum okkar að því hvaða mörk þurfi að setja við samninga við einkaaðila um framkvæmd grundvallarvelferðarþjónustu eins og heilbrigðisþjónustu. Ég vil lýsa þeirri skoðun að varhugavert sé að semja við félög í eigu fagfjárfesta um slíka þjónustu vegna þess að þau þurfa, af því að þau eru rekin í hagnaðarskyni eðli málsins samkvæmt, að greiða arð af starfsemi sinni til eigenda sinna. Það fé fer þá út úr heilbrigðisþjónustunni og verður ekki til að þjónusta fólk.

Reynsla Svía af því er mjög bitur hvað þennan þátt samninga varðar, að fyrirtæki sem rekin eru í hagnaðarskyni láti hagnaðarsjónarmiðin og þörfina á arðgreiðslu vera í forgrunni og spari þá frekar við sig mönnun í þjónustunni ef val er á milli þessa tvenns. Það er óásættanlegt.

Það er auðvitað og á að vera svigrúm til samninga við félög sem eru í eigu starfsmanna og geta ekki greitt arð út úr starfsemi sinni en við eigum að sameinast um þær meginlínur að ekki verði samið um framkvæmd heilbrigðisþjónustu við félög í eigu fagfjárfesta sem eru rekin í hagnaðarskyni og greiða arð af starfsemi sinni. Við eigum að setja skilyrði um eignarhald starfsfólks og að félögin séu lokuð þannig að ekki sé hægt að greiða úr þeim arð ef verið er að semja við einkaaðila um framkvæmd heilbrigðisþjónustu.


Efnisorð er vísa í ræðuna