145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég var ung stúlka átti ég sparisjóðsbók í Landsbankanum í Austurstræti. Eitt sinn brá ég mér í bæinn og tók út dágóða upphæð sem ég man ekki lengur til hvers ég ætlaði að nota. Þegar ég kom heim með peningaumslagið var hringt úr bankanum og mér tjáð að þeir hefðu gert mistök, ég hefði fengið of mikið af peningum í minn hlut og ég var beðin um að koma strax og skila þeim.

Það fannst mér alveg sjálfsagt mál og fór undir eins í bankann og skilaði peningunum.

Mér datt þessi saga úr æsku minni í hug þegar svokallað Borgunarmál kom upp á dögunum, sem er alveg ótrúlegt klúður og með ólíkindum að bankinn skuli hafa staðið að málum eins og raun ber vitni. Í fyrsta lagi hlýtur að vera krafa um galopið og gegnsætt söluferli þegar eignir ríkisins eða ríkisbanka eru annars vegar. Hins vegar er það óskiljanlegt að bankinn skyldi ekki setja inn fyrirvara í kaupsamninginn vegna hugsanlegrar yfirtöku Visa Inc. og Visa Europe sem færði hluthafahópnum milljarða í sinn hlut að því er talið er.

Fram hefur komið að þegar bankinn seldi hlut sinn í Valitor til Arion banka þremur vikum síðar var settur inn slíkur fyrirvari. Landsbankinn er nánast að fullu í eigu ríkisins og því eru stjórnendur Landsbankans að sýsla með eigur almennings þegar þeir ráðstafa eignum bankans. Hvers vegna fer bankinn ekki fram á að peningnum verði skilað vegna þeirra mistaka, eins og forðum? Væri það ekki hið eina rétta og sanna niðurstaða í þessu máli að hluthafahópurinn mundi einfaldlega endurgreiða bankanum þá peninga sem með réttu hefðu átt að koma í hans hlut og bæta þannig almenningi þennan skaða?

Að lokum tel ég rétt að Bankasýslan láti fara fram óháða rannsókn á þessu máli sem fyrst.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna