145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Síðastliðið fimmtudagskvöld tók ég fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þátt í opnum umræðufundi um TiSA, sem stjórnmálasamtökin Dögun stóðu fyrir í Norræna húsinu. Öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi var boðið að taka þátt með því að sitja í pallborði og svara spurningum. Þarna fóru fram afar fróðlegar umræður og greinilegt að margir hafa áhuga og áhyggjur af þessum samningaviðræðum. Eitt af því sem margir fundarmenn nefndu og höfðu áhyggjur af er leyndin sem hefur verið yfir umræðunum og hvað það nákvæmlega er sem verið er að semja um. Ísland hefur reyndar birt öll gögn sín opinberlega, en það var staðfest á fundinum að birting á samningstextanum var ekki að frumkvæði samningsaðilanna, þ.e. textarnir voru ekki birtir fyrr en búið var að leka þeim.

Það vill alloft gerast að utanríkismál séu eins og tekin út fyrir sviga þegar kemur að pólitískri umræðu. Þau eru oft lokuð inni í utanríkismálanefnd þar sem fulltrúar eru oft og tíðum bundnir þagnarskyldu. Það er afar óheppilegt að mínu mati og eykur á tortryggni almennings, stundum réttilega. Það er hins vegar eftirspurn eftir meiri samfélagsumræðu um utanríkismál og ekki bara eftir að framkvæmdarvaldið hefur skrifað undir eitthvað með fyrirvara um samþykkt Alþingis. Þetta sýndi fundur Dögunar.

Mér finnst að þetta sé eitthvað sem við þurfum að íhuga í því hvernig við högum störfum okkar á Alþingi.

Að því sögðu fagna ég því sérstaklega að það verður sérstök umræða um TiSA síðar í þessari viku að beiðni hv. þm. Ögmundar Jónassonar.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna