145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að vera hér á mjúku og hlýju nótunum í dag, aldrei þessu vant. (ÖS: Hvar er Jón Gunnarsson?)Af því að Jón Gunnarsson er ekki í húsi.

Á nýafstaðinni þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var í Grindavík í liðinni viku kynnti ég verkefni íslensks áhugafólks um verndun íslensku sauðalitanna og möguleika á að stofna regnhlífarsamtök um menningartengda ullarvinnslu í vestnorrænu ríkjunum sem og annars staðar á Norðurlöndunum.

Áhugamannafélagið Sauðalitir hefur unnið að kynningu á mikilvægi þess að stofna og standa saman að rekstri smáspunaverksmiðja hér á landi svo unnt sé að varðveita hreina ull og fjölbreytileika sauðalitanna og þau menningarverðmæti sem í ullinni eru fólgin. Sambærileg verkefni eru til bæði á Álandseyjum og í Gotlandi.

Meðal þeirra sem sýnt hafa verkefninu áhuga og skilning er Kvenfélagasamband Íslands og Heimilisiðnaðarfélag Íslands og er unnið að því að ná til sambærilegra samtaka á Norðurlöndunum. Eins og staðan er í dag fá bændur minna greitt fyrir mislita ull en skjannahvíta. Með tilstuðlan smáspunaverksmiðja er gefinn kostur á upprunamerkingu sem leiða mundi af sér meira virði sjaldséðra mislitra reyfa og bændur fengju fjárhagslegan hvata til að fjölga mislitu sauðfé á ný.

Eftirspurn eftir fatnaði sem laus er við kemísk efni og framleidd eru með lífrænni Fair trade-vottun, eða vottun um sanngjörn viðskipti, eykst mikið og miklir möguleikar eru á að markaðssetja vandaða hönnun úr hreinni, mislitri ull. Ég tel að vinnsla á hreinni ull sé menningarverðmæti (Forseti hringir.) sem við þurfum að standa saman að að efla.


Efnisorð er vísa í ræðuna